136. löggjafarþing — 94. fundur,  4. mars 2009.

kosningar til Alþingis.

368. mál
[18:17]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég hjó eftir því í ræðu hv. þm. Geirs H. Haarde að hann sagði að hér væri verið að gjörbreyta eðli kosningafyrirkomulagsins. Mig langar til að inna þingmanninn eftir viðhorfi hans til þess álitamáls að í dag er það þannig að hægt er að breyta fyrirkomulaginu. Hægt er að breyta listum í dag ýmist með því að strika út nöfn eða breyta röðun lista og slíkar aðgerðir kjósenda geta haft áhrif á það hverjir verða endanlega kjörnir þingmenn viðkomandi lista. Telur hann að með þeim breytingum sem eru heimilar í dag samkvæmt kosningalögum sé verið að gjörbreyta eðli kosningafyrirkomulagsins? Ef við t.d. tækjum þá leið að auka vægi þess að breyta listum frá því sem er í dag, þannig að breytingarnar hefðu mun meira vægi en í dag, væri verið að gjörbreyta kosningafyrirkomulaginu með því? Að slepptum þeim hugmyndum sem eru í frumvarpinu og aðeins væri verið að fara þá leið að áhrif kjósandans á að breyta lista frá því sem er í dag væri aukið, væri þá að hans mati verið að gjörbreyta kosningafyrirkomulaginu?