136. löggjafarþing — 95. fundur,  5. mars 2009.

virðisaukaskattur.

289. mál
[12:13]
Horfa

Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir það mál sem er hér á dagskrá. Ég held að það sé afskaplega jákvætt miðað við þær aðstæður sem við búum við núna á Íslandi. Ég hlýddi vel á ræðu hv. þm. Gunnars Svavarssonar og tek undir flest það er hann kom að varðandi þetta mál.

En mig langar að spyrja hv. þingmann frekar út í þann mismun sem mér finnst vera í þessu frumvarpi. Það er að einungis er verið að tala um að endurgreiða virðisaukaskatt á byggingarstað. Undantekningin er með arkitekta, verkfræðinga og hönnuði sem vinna sína vinnu utan byggingarstaðarins.

Þá komum við að því sem hv. þingmaður nefndi reyndar í seinni hluta ræðu sinnar. Hvað með t.d. rafvirkjann sem er með fullkomna vinnuaðstöðu á verkstæði sínu og setur upp töflu, endurnýjar raftöflu í húsi? Hann vinnur verkið á verkstæði sínu þar sem hann er með fullkomna aðstöðu til að vinna það sem hagkvæmast. Hann fer með töfluna tilbúna og setur hana upp í viðkomandi byggingu og þræðir svo í. Hann gengur frá öllum mælum og öðru sem þarf að ganga frá.

Við erum í rauninni að stuðla að óhagkvæmni með því að heimila ekki þessum rafverktaka að vinna þessa vinnu á verkstæði sínu. Við erum að þröngva honum til að fara á byggingarstaðinn þar sem hann hefur kannski ekki öll tól og tæki og þannig má lengi telja. Hv. ræðumaður nefndi gluggaverksmiðjur, glerverksmiðjur, forsteyptar einingar og annað. Það má nefna mörg fleiri dæmi. Þetta er spurning um mismunun. Höfum það alla vega í huga að láta íslenska framleiðslu og íslenska vinnu (Forseti hringir.) ganga fyrir.