136. löggjafarþing — 95. fundur,  5. mars 2009.

hagsmunir Íslands í loftslagsmálum.

370. mál
[14:24]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að taka undir með hv. þm. Atla Gíslasyni héðan úr sæti sínu að það er ekki nema sjálfsagt að hæstv. umhverfisráðherra fái að tjá sig um það mál sem hér liggur fyrir og raunar undarlega hagað að ekki sé hægt að bíða með umræðuna þangað til hún getur gert það en úr því að mönnum liggur svona á að taka þessa gömlu umræðu þá skulum við svo sem láta það vera.

Auðvitað mun ríkisstjórn Íslands fylgja fram ýtrustu hagsmunum Íslendinga í loftslagsviðræðunum og gerir það enda eru ýtrustu hagsmunir Íslendinga þeir að það náist alþjóðlegt samkomulag um það að draga úr loftslagsmengun vegna þess að af því höfum við alla hagsmuni um efnahag okkar og framtíð til áratuga ef ekki árhundruða. Þegar því meginmarkmiði okkar er náð sækjum við að sjálfsögðu heimildir fyrir þeirri starfsemi sem er í landinu, nema hvað? Átti einhver von á öðru? Það eru íslenskir hagsmunir. En í forgrunni hlýtur það að vera að í Kaupmannahöfn nái þjóðir heimsins saman um einn samning og til þess að 192 þjóðir geti náð saman um einn samning í loftslagsmálum sem hefur víðtæk og veruleg áhrif í efnahagsmálum, umhverfismálum og atvinnumálum í hverju landi þá er það náttúrlega höfuðnauðsyn að menn hafi þann þroska til að bera að leggja sérkröfur sínar og séráherslur til hliðar meðan verið er að ná saman um meginmarkmiðin og meginatriðin í samkomulaginu. Þetta eru áherslur ríkisstjórnarinnar og þetta voru áherslur ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar í þessum viðræðum og ég trúi því að þetta séu réttar áherslur fyrir íslenska hagsmuni, fyrir hagsmuni umhverfisins og fyrir hagsmuni heimsins. Við getum ekki leyft okkur það með þá ógn sem yfir okkur vofir í umhverfis- og loftslagsmálum að leggja höfuðáherslu á þá hagsmuni okkar sem lúta að sérákvæðum um Ísland. Við hljótum að leggja höfuðáherslu á meginhagsmunina, þ.e. að það takist að varna því að hlýnunin verði svo mikil sem annars verður með þeim miklu afleiðingum ekki bara fyrir umhverfið heldur fyrir efnahag alls heimsins og þar með fyrir efnahags- og atvinnumál á Íslandi um langa framtíð.

Þeir hagsmunir sem við síðan ræðum og varða einstakar verksmiðjur í landinu eru satt að segja jafnvel þó að þeir væru fyrir borð bornir hreint smáræði í samanburðinum við hina gríðarlegu hagsmuni í efnahags- og atvinnumálum fyrir Íslendinga um alla framtíð sem eru í því fólgnir að það takist samkomulag, að 192 þjóðir geti lagt sínar kröfur og sína sérstöðu til hliðar og náð saman um meginmarkmiðin. En hins vegar er engin ástæða til að láta bera fyrir borð hagsmuni þeirrar atvinnustarfsemi sem hér er í landinu og auðvitað ekki ætlun ríkisstjórnarinnar að gera það þó að það sé auðvitað næsta mál eftir að hið stóra samkomulag hefur náðst að ná fram því sem lýtur að atvinnustarfseminni í landinu og hugsanlega að axla einhverjar byrðar, því að það er auðvitað þannig um hið stóra samkomulag sem verður að nást að það er ekki hægt að ná þeim markmiðum öðruvísi en menn taki á sig einhverjar byrðar og þá auðvitað ekki síst öryggið.

Þegar við tölum um okkar mikla árangur í umhverfismálum skulum við ekki gleyma því að við erum hröðum skrefum að verða meðal þeirra þjóða sem menga hvað mest í loftslagsmálum miðað við íbúafjölda. (Gripið fram í.) Það er ekkert flókið við það. Þess utan eru auðvitað veigamikil efnisleg rök sem menn verða að horfa til. Á allra næstu árum, þ.e. þeim árum sem eru fram að því að við verðum hluti af loftslagsmarkaðnum í Evrópusambandinu, sem ákvörðun hefur verið tekin um, þá eru ekki að fara af stað hér nein ný verkefni í stóriðju. Það hefur ekkert með bjartsýni eða svartsýni að gera. Það hefur bara með það að gera hvað það tekur mörg ár að undirbúa slík verkefni. Þegar við erum orðin hluti af Evrópumarkaðnum gilda einfaldlega sömu leikreglur á Íslandi og annars staðar í Evrópu fyrir þessa starfsemi og þar er auðvitað talsverður sveigjanleiki og möguleikar á hagræðingu og hvatar til að ná árangri í umhverfismálum sem getur eflaust komið sér vel fyrir þá starfsemi sem hér er. Það verður því ekki séð að það séu nein efnisleg tilefni til að sækja hart fram íslenska ákvæðið óbreytt, þó að auðvitað eigi að sækja fram þær þarfir sem sú starfsemi sem er í landinu og ákveðið hefur verið að skuli vera í landinu og hagsmuni hennar þurfi að tryggja, vegna þess að við verðum einfaldlega komin inn í annað kerfi þegar hér gæti hugsanlega farið að reyna á kannski eitthvert íslenskt ákvæði. Fyrir utan það, og það er auðvitað býsna mikið umhugsunarefni, að þetta íslenska ákvæði sem svo hefur verið kallað, 14/CP.7, eða sá viðauki við loftslagssamninginn frá Kyoto sem hér um ræðir, byggir náttúrlega á býsna sérkennilegum forsendum vegna þess að hér er fullyrt í ræðustólnum að það sé 6–8 sinnum betra fyrir loftslagið að byggja álver á Íslandi en annars staðar í heiminum með kolum og olíu.

Virðulegir alþingismenn. Þetta eru ekki valkostir. Valkostirnir standa ekki um það hvort hér verði byggt álver með endurnýjanlegri orku og hins vegar að byggt verði álver einhvers staðar annars staðar og knúið kolum og olíu. Þannig er ekki veruleikinn. Yfir helmingurinn, hygg ég að ég muni rétt, af álverum heimsins er einfaldlega knúinn af vatnsorku. Þannig liggja þær tölur og mjög verulegur hluti af því sem er að koma nýtt inn. Þau fyrirtæki sem eru að skoða það að koma upp álverum hér, stór fyrirtæki á alþjóðamarkaði eins og Alcoa og Alcan hafa umhverfisstefnu og þau hafa grundvallarsjónarmið um hvað megi og hvað megi ekki. Ég get alveg lofað hv. þingmönnum því að Alcoa er ekki að velta því fyrir sér annars vegar hvort byggja eigi umhverfisvænt álver á Húsavík eða hins vegar sóðaálver í Kína. Það er ekki þannig. Þessi fyrirtæki sem við höfum talið að væri ástæða til að fá til landsins með sína starfsemi eru fyrirtæki sem gera miklar kröfur til sjálfra sín. Þau eru auðvitað bara að skoða kosti á því að byggja með ábyrgum hætti annaðhvort hér eða í öðrum löndum. Það að stilla upp valkostum sem annaðhvort þeim að byggja á endurnýjanlegum orkugjöfum á Íslandi eða á kolum og olíu einhvers staðar úti í hinum vonda heimi er orðin býsna sérkennileg mynd af veröldinni ef við í ánægju okkar og að sjálfsögðu þjóðarstolti yfir því að hafa verið dugleg við að koma okkur upp hitaveitu, erum virkilega farin að tala okkur upp í þann hita í ræðustól Alþingis að hvergi í henni veröld sé framleidd endurnýjanleg orka nema á Íslandi, að hér séu þeir 300 þúsund jarðarbúar sem einir eru færir um það. Auðvitað er það ekkert annað en fjarstæða. Auðvitað framleiða menn endurnýjanlega orku um víða veröld og eru bara býsna flinkir við það, í Norður-Ameríku, Suður-Ameríku, á meginlandi Evrópu og í Asíu. Öll sú röksemdafærsla er fremur á veikum stoðum reist.

Ég ítreka að það er sjálfsagt að við tryggjum þá starfsemi sem fyrir er í landinu og hefur verið ákveðin í landinu áður en við förum inn á evrópska markaðinn og tryggjum þannig þeim álverum sem kunna að koma til síðar sambærilegt starfsumhverfi eins og gerist annars staðar á þeim markaði sem við erum hluti af. Þó að það sé sjálfsögð og ábyrgð afstaða stjórnvalda á hverjum tíma að skapa sjálfsögð almenn skilyrði fyrir atvinnustarfsemina, þá held ég að það séu engin efnisleg rök fyrir þeirri umræðu sem hér fer fram þó að þau kunni að hafa verið fyrir hendi þegar verið var að sækja undanþáguna sem kennd er við Kyoto vegna þess að þá voru hér fram undan nokkuð stór verkefni hvers hagsmuni menn voru að hugsa um.

Ég held hins vegar að ef þeir sem málið flytja, og með fullri virðingu fyrir þeim fjölmörgu hv. þingmönnum, það væri a.m.k. athyglisvert, gætu bent á eitt verkefni hvers hagsmunir væru tryggðir með því að þetta ákvæði yrði sótt fram en ekki bara fylgt þeirri stefnu sem ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar markaði og ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna fylgir fram um það að fyrst skuli leggja áhersluna á að ná því markmiði heimsins að hér hlýni ekki yfir tvær gráður og síðan eigi að tryggja hagsmuni þeirrar starfsemi sem er í landinu og í framhaldi af því að fara inn á hinn evrópska markað með mengunarheimildir. Ég tel að sú stefna fullnægi einfaldlega öllum íslenskum hagsmunum, öllum ýtrustu íslenskum hagsmunum og að ekki hafi verið bent á neina þá beinu bráðu eða brýnu hagsmuni sem ekki er fyrir séð með þessari stefnumörkun, enda er það auðvitað svo að mér er til efs að okkar ágæti fyrrverandi samstarfsflokkur, Sjálfstæðisflokkurinn, sem er uppistaðan í flutningsmönnum þessarar tillögu, hefði fallist á þá stjórnarstefnu sem hér ríkti framan af þessu kjörtímabili í nærri tvö ár ef hún fæli ekki í sér að fylgja fram ýtrustu hagsmunum íslensku þjóðarinnar. Það mætti a.m.k. að hafa verið býsna sérkennileg afstaða að bindast stjórnarböndum og gera stjórnarsáttmála um umhverfisstefnu í landinu sem skaðaði tilfinnanlega ýtrustu hagsmuni Íslands í atvinnumálum. Ég á bágt með að trúa því að Sjálfstæðisflokkurinn hafi yfir höfuð upplifað það sem svo.

En það verður út af fyrir sig athyglisvert að heyra það hvort flutningsmenn geti tilfært eitt dæmi, þótt ekki sé nema bara eitt dæmi um íslenska hagsmuni sem séu í einhverri hættu vegna þeirrar stefnu sem ríkisstjórnin hefur markað og ég hef hér lýst og umhverfisráðherra hefur út af fyrir sig lýst og hv. þm. Atli Gíslason. Ég tel mig þekkja nægilega vel til þeirra mengunarheimilda sem þarf fyrir starfsemi í landinu og fyrir þau verkefni sem menn hafa verið að skoða fram að þessu til að vita að þessi stefna á að fullnægja öllum þeim þörfum sem hér eru fyrirsjáanlegar fram að því að við förum inn á evrópska markaðinn með loftslagsheimildir. Ég árétta það bara að ýtrustu hagsmunir Íslands í þessum málum eru að saman náist um eina niðurstöðu 192 þjóðríkja fyrir jól. Það verður ekki gert með því — þessar 192 þjóðir sem sannarlega, alveg eins og við Íslendingar, eru hver fyrir sig sérstök, á hver fyrir sig sína sögu, hefur hver um sig gert sína hluti í orkumálum, á hver um sig sérstaka atvinnusögu og geta á margvíslegum forsendum gert sérstakar kröfur — að ýtrustu hagsmunir Íslands eru að við hefjum okkur upp yfir þær ýtrustu sérkröfur og náum meginmarkmiðum samkomulagsins og tryggjum síðan í framhaldinu að sú starfsemi sem fer fram í landinu og hagsmunir hennar séu sannarlega tryggðir. Enda er það vissulega mikilvægt sem fram hefur komið hjá flutningsmönnum að við í atvinnumálum á næstu mánuðum og missirum sækjum fram af bjartsýni og sækjumst eftir íslenskum hagsmunum, enda er það á stefnuskrá ríkisstjórnarinnar og á hennar plani í þeim viðræðum sem hér hefur verið að ræða.