136. löggjafarþing — 95. fundur,  5. mars 2009.

kosningar til Alþingis.

368. mál
[16:44]
Horfa

Sturla Böðvarsson (S):

Hæstv. forseti. Hér ræðum við það mikilvæga viðfangsefni laganna sem eru lög um kosningar til Alþingis. Það er ekki á hverjum degi sem við fáum tækifæri til þess á hinu háa Alþingi að fjalla um breytingar á stjórnarskrá eða lögum um kosningar til Alþingis og þess vegna er mikilvægt að okkur gefist góður tími til þess að fara yfir þessi mál. Það sem hér er fjallað um sérstaklega og lýtur að auknu persónukjöri í kosningum til Alþingis, er að mínu mati afar mikilvægt. Ég er fylgjandi því að við aukum möguleika kjósenda á að velja á milli einstaklinga. Ég tel að við Íslendingar höfum verið að þróa það allvel með, eins og hér hefur komið fram, prófkjöri hjá einstaka flokkum, mismunandi umfangsmiklum prófkjörum, sumir flokkar láta sér nægja tiltölulega þröngan hóp, aðrir hafa opin prófkjör o.s.frv. En hér er verið að tala um að á kjörseðli eigi kjósandinn þess kost að velja og raða.

Ég tel þetta geysilega mikilvæga umræðu í lýðræðissamfélagi okkar og hún þarf að fara fram á Alþingi. Hún þarf að fara fram um allt þjóðfélagið. Við þurfum að fá almenning með okkur og sannfæra hann um að þær breytingar sem við viljum gera núna á kosningafyrirkomulaginu séu sannfærandi. Ég verð að viðurkenna að mér brá nokkuð þegar fregnir bárust af því að á Íslandi væru nú eftirlitsmenn frá alþjóðlegri stofnun sem fylgist með og hefur eftirlit með kosningum í lýðræðisríkjum. Hér inni í þingsalnum er einmitt þingmaður sem þekkir slíka vinnu, eftirlit með kosningum. Ég veit ekki til þess að það hafi áður gerst á Íslandi í aðdraganda kosninga að það sjáist til slíkra eftirlitsmanna. Hvað er að gerast? Hafa áform um breytingar nokkrum vikum fyrir kosningar á kosningalöggjöf leitt til þess að eftirlitsstofnanir alþjóðasamfélagsins telji ástæðu til að hafa sérstaklega auga með kosningum á Íslandi?

Ég tel þetta umhugsunarefni og eitt af því sem við þurfum að velta fyrir okkur og huga að. En hvað um það, ég tel að þessi umræða sé geysilega mikilvæg og við alþingismenn eigum að taka höndum saman um að ganga til breytinga sem eru til góðs og eru líklegar til að efla tilfinningu almennings í landinu, tilfinningu kjósenda, fyrir vali í kosningum. Við þurfum að standa þannig að málum að kosningaþátttaka minnki ekki á Íslandi, hún hefur verið að minnka víða í nágrannalöndum okkar. Meðal annars liggur fyrir í greinargerð með þessu frumvarpi að það val sem t.d. er boðið upp í Svíþjóð hefur ekki leitt til þess að kosningaþátttaka hafi aukist eða fleiri og fleiri hafi valið þann kost að velja eftir því kerfi sem Svíarnir hafa sett upp hvað varðar aukið persónuval.

En hvað um það, við höfum þetta frumvarp fyrir okkur og við þurfum að taka afstöðu til þess. Ég hlýddi á framsöguræðu 1. flutningsmanns frumvarpsins, hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar, og ég verð að viðurkenna að hann sannfærði mig ekki um að þær aðferðir sem settar eru upp í þessu frumvarpi séu sú leið sem við eigum að fara, enda kemur fram í greinargerðinni — og hann vakti sérstaka athygli á því — að það kynnu að vera aðrir kostir í spilunum. Nefndin þyrfti að fara ofan í það hvort frumvarpið sem hv. þingmaður mælti fyrir væri þess eðlis að gera þyrfti grundvallarbreytingar á því. Ég held að allsherjarnefnd, sem fær þetta til meðferðar, þurfi svo sannarlega að skoða þetta mjög vandlega.

Um leið og ég undirstrika að ég vil taka þátt í breytingum sem auka persónuvalið, velja hina réttu leið sem við getum náð sátt um, þarf að tryggja að við séum ekki að eyða tímanum í þessa umræðu núna, um svona frumvarp sem e.t.v. liggur fyrir að komist ekki í gegnum þingið vegna þess að samkvæmt 32. gr. stjórnarskrárinnar þurfi tvo þriðju þingmanna til að samþykkja slíkar breytingar á kosningareglunum.

Það liggur fyrir lögfræðiálit innan þingsins. Í niðurstöðu þess segir að um þá breytingu á kosningalögunum sem við fjöllum um, gildi ákvæði 32. gr. um að tvo þriðju hluta atkvæða á Alþingi þurfi til að gera breytinguna. Allsherjarnefnd þarf að fara ofan í þetta og kynna sér það vandaða lögfræðiálit sem liggur fyrir innan þingsins og þarf að skoða. Við eigum ekki að standa frammi fyrir því að talið verði að við höfum breytt lögum hér sem varða kosningar til Alþingis þannig að ekki standist stjórnarskrána. Það gæti leitt til þess að kosningin yrði kærð, enda varar einn af höfundum frumvarpsins við þessu í grein í Fréttablaðinu í gær. Þar kemur fram að sú leið sem gert er ráð fyrir að farin verði í frumvarpinu, sé umdeild, það sé umdeilt hvort þetta ákvæði stjórnarskrárinnar gildi um frumvarpið. Hann gengur ekki lengra en svo en vekur athygli á að það sé umdeilt. Það segir mér að þetta þurfi að skoða alveg sérstaklega.

Annað sem var í þessu ágæta blaði sem vitnað var til og vakti reyndar athygli mína var það — sem er allt annað mál — að fram kom hjá hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra að þau hafa miklar áhyggjur af því að mál gangi ekki nógu hratt fram í þinginu. Þau telja að mál gangi ekki eins og nauðsynlegt sé, eins og segir í Fréttablaðinu, svo ég vitni til þess, með leyfi forseta:

„Þá létu ráðherrar í veðri vaka að það stæði upp á þingið að hafa hraðar hendur.“

Um hvað erum við að fjalla? Erum við að fjalla um bráðnauðsynlegar aðgerðir fyrir heimilin, fyrirtækin og bankakerfið í landinu? Nei, við erum að fjalla um breytingar á kosningalöggjöfinni sem ég tel að sé nauðsynlegt að fara yfir en ég tel að það sé ekki forgangsmál sem ryðji öðrum mikilvægum málum frá og til hliðar. Ég er alveg sammála hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra að við þurfum að gæta þess að þau mál sem eru mikilvæg fyrir efnahagsstöðuna í landinu og það alvarlega ástand sem hér er og er nauðsynlegt að afgreiða til að koma til móts við það ástand.

Þetta vildi ég nefna hér í framhjáhlaupi af þessu tilefni.

Hvað varðar hins vegar það frumvarp sem hér er til meðferðar tel ég að það sé mjög mikilvægt að breytingarnar feli í sér að útfærslan á kerfinu sé einföld. Ég hef miklar efasemdir um að það sé skynsamlegt að mismunandi aðferðir séu hjá flokkunum. Einn flokkur velur frambjóðendur og fastsetur á listann í prófkjöri á meðan annar flokkur býður upp á að stilla upp óraðað og lætur kjósendum eftir röðun. Ég tel að það sé ekki kostur eins og hér er gert ráð fyrir sem æskilegum möguleika. Ég tel a.m.k. að allsherjarnefnd þurfi að fara mjög vandlega ofan í þetta fyrirkomulag. Við viljum ekki hrapa að neinum breytingum sem gera framkvæmd kosninga til Alþingis Íslendinga flókna og líklega til þess að fjöldi atkvæðaseðla gæti orðið ógildur þó að sem betur fer muni fólk að sjálfsögðu kynna sér vel þær reglur sem eru í gildi.

Ég tel engu að síður mikilvægt að þetta atriði sé á þann veg að ein regla gildi um framboð allra flokkanna á Íslandi. Þá er spurningin: Hvaða aðferð er best? Það tel ég að allsherjarnefnd þurfi að skoða vandlega og er æskilegt að við finnum sameiginlega leið sem við getum samþykkt, helst samhljóða, á Alþingi. Það væri mjög af hinu vonda ef efnt yrði til mikils ófriðar um þetta mál. Ég verð að segja alveg eins og er að miðað við framsögu 1. flutningsmanns var ekki verið að gefa færi á miklum málamiðlunum þar. Fullyrt var að lögfræðiálit sem varðar 32. gr. stæðist ekki sem gerir ráð fyrir því að tveir þriðju þingmanna verði að samþykkja breytingarnar þannig að ekki var gefið neitt færi á mikilli umfjöllun eða miklum breytingum á þessu frumvarpi nema þá gjörsamlega í grundvallaratriðum.

Hæstv. forseti. Ég tel sem sagt að við þurfum að fara mjög vandlega yfir þetta og ítreka almennan stuðning minn við aukið persónuval. Ég vænti þess og vona svo sannarlega að hv. allsherjarnefnd nái að fjalla þannig um frumvarpið að við fáum aftur inn í þingið vandaða lagasmíði sem við getum sameinast um, hvort sem það verður á þessu vori eða að þeir sem hér verða áfram fái tækifæri til að afgreiða það næsta haust.