136. löggjafarþing — 96. fundur,  6. mars 2009.

samgöngumál -- tónlistarhús -- forgangsmál ríkisstjórnarinnar.

[11:05]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Hæstv. forseti. Ekkert af því sem kemur fram í verkefnaskrá flokkanna sem varðar heimilin í landinu er að frumkvæði þessarar ríkisstjórnar gert. Þetta eru allt saman verkefni sem voru þegar í farvatninu af hálfu fyrir ríkisstjórnar. Hins vegar eru alls konar önnur verkefni hér, aukið lýðræði, jafnar upplýsingar, sem mér skilst að sé þá breyting á stjórnskipuninni. Aðalgæluverkefni þessarar ríkisstjórnar (Gripið fram í: Seðlabankinn.) er að einhenda sér í að snúa stjórnarskránni við. Það er forgangsröðun þessarar ríkisstjórnar.

Á 80 dögum ætlaði þessi ríkisstjórn að breyta öllu í landinu, það var forgangsverkefnið, en ekki að líta sérstaklega til skulda heimilanna, ekki að endurreisa atvinnulífið. Það var bara orðagjálfur, er ég farin að halda. Aðalþunginn er í því að breyta kosningalöggjöfinni og stjórnarskránni, taka grundvallarbreytingar sem yfirleitt eru unnar í samráði við aðra flokka, sem yfirleitt á rót að rekja til umræðu í þjóðfélaginu. Nei, þetta er bara gert í einhverjum bakherbergjum og síðan slengt inn í þingið og ætlast til þess að þjóðin, sem bíður eftir alvörulausnum, hlusti á þetta og fylgist með þessari ruglumræðu. Á meðan eru heimilin í landinu í gríðarlegum vanda.

Framsóknarflokkurinn kom fram með hugmynd um daginn um 20% niðurfellingu skulda. Framsóknarmenn voru varla búnir að sleppa orðinu þegar forsvarsmenn þessarar ríkisstjórnar hlógu hann hálfpartinn út af borðinu. Það var ekki mikið verið að sýna þeim hugmyndum sem Framsóknarflokknum sem kom með, virðingu. (ÁÞS: Við buktum okkur og beygjum fyrir Framsókn í hvívetna.) En það koma bara engar hugmyndir af hálfu ríkisstjórnarflokkanna um hvernig bregðast eigi við skuldavanda heimilanna, engar hugmyndir nema það að „við ætlum að bjarga öllu, við ætlum að gera þetta allt saman vegna þess að hinir gátu það ekki“ — en hugmyndirnar koma ekki. (Forseti hringir.)