136. löggjafarþing — 97. fundur,  9. mars 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða o.fl.

321. mál
[18:17]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég taldi það koma ágætlega skýrt fram í mínu máli áðan að ég væri ekki sérstaklega að mælast til þess að breytingartillaga hv. þm. Péturs H. Blöndals yrði samþykkt. Ég taldi að hún væri mjög í anda þess sem unnið var að í fjármálaráðuneytinu á sínum tíma og ég fór hér aðeins yfir sjónarmið sem styrktu þá aðferðafræði. Frumvarpið eins og það liggur fyrir þinginu gengur auðvitað ekki eins langt og er annars eðlis. Það gerir ráð fyrir að sparnaðareigendur geti haft til frjálsrar ráðstöfunar þær upphæðir sem talað er um í frumvarpinu og ég get tekið undir það að mér finnst það í sjálfu sér vel koma til greina, enda setji menn svona þröng mörk eins og gert er í málinu á hámarksúttektina.

Mér þætti allt eins koma til greina að flétta saman þessum tveimur aðferðum, þ.e. að vera með einhverja tiltekna fjárhæð til frjálsrar ráðstöfunar, og það verður þá að vera tiltölulega lág fjárhæð, og svo hin að menn geti nálgast þennan sparnað sinn til að gera upp skuldir og það getur verið beinlínis skynsamlegt. Reyndar var ég hrifinn af því frumvarpi sem hv. þm. Árni M. Mathiesen vann að á sínum tíma sem fjármálaráðherra.

Að þessu leyti til heyrist mér að ég og hv. þm. Árni Þór Sigurðsson séum sammála um að þetta gæti komið til greina vegna þess að ég skil ekki nefndarálitið öðruvísi en svo að þessu sé vísað til frekari skoðunar.