136. löggjafarþing — 97. fundur,  9. mars 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða o.fl.

321. mál
[20:51]
Horfa

Guðfinna S. Bjarnadóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er greinilegt að ég og hv. þm. Björn Bjarnason erum alveg sammála um það að nefndarálit og tillaga minni hluta efnahags- og skattanefndar er sú tillaga sem við gjarnan mundum vilja ræða betur og nánar.

Ég tek fram að Fjármálaeftirlitið varaði líka mjög við þeirri útfærslu sem fram kemur í frumvarpinu. Vissulega á Fjármálaeftirlitið að spila þarna rullu. Fjármálaeftirlitið á að fá umsóknir frá sjóðum sem telja eignir sínar vera í væntanlegri hættu vegna þess að eignir væru ekki seljanlegar eða þá að hætta væri á brunaútsölu ef ekki kæmi til greiðslustöðvunar. Það er óafsakanlegt að bjóða þessa lausn þegar umræða um séreignarsparnað hefur verið í gangi núna í langan tíma, að lausnin skuli vera þess eðlis að hún komi kerfinu í uppnám.

Ég tek innilega undir orð Björns Bjarnasonar þegar hann talar um þriðju stoðina og stolt okkar, séreignarsparnaðinn, sem er eiginlega nýtt í okkar kerfi, ef fórna á þeim hagsmunum vegna þess að umrædd útfærsla verður ofan á einhverra hluta vegna. Kannski þykir hún einföld og aðgengileg. Ég get alveg tekið undir að hún er einföld en hún er ekki aðgengileg. Hún er ekki aðgengileg þegar maður nr. 83.000 sækir um og sjóðurinn hans eða hennar segir: Afsakið, við þurfum að ræða við Fjármálaeftirlitið, við verðum að stöðva greiðslur vegna þess að sjóðurinn okkar getur ekki tekið við umsókn þinni, þú ert ekki fyrstur kemur, fyrstur fær. Það var einhver annar.