136. löggjafarþing — 100. fundur,  11. mars 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[13:46]
Horfa

Sturla Böðvarsson (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Nú er að hefjast sú umræða um stjórnarskipunarlögin sem samkomulag náðist um að yrði hér í dag og þá bregður svo við að enginn af flutningsmönnum frumvarpsins er til staðar í húsinu, (Gripið fram í: Jú, Birkir Jón.) nema fulltrúi Framsóknarflokksins sem mun vera hér í hliðarsal. Langvarandi fjarvistir og þá sérstaklega 1. flutningsmanns, Jóhönnu Sigurðardóttur hæstv. forsætisráðherra, í gær vakti mikla athygli og að sjálfsögðu er algjörlega óviðunandi að 1. flutningsmaður þessa mikilvæga frumvarps sé ekki til staðar. Nú þegar blasir við að hæstv. forsætisráðherra er ekki við í dag og ætlar ekki að taka þátt í þessari mikilvægu umræðu hljótum við að mótmæla því og gera kröfu um að umræðunni verði frestað þar til forsætisráðherra kemur í hús.