136. löggjafarþing — 102. fundur,  13. mars 2009.

Tilkynning forsætisráðherra um þingrof og kosningar.

[10:33]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Forseti Íslands hefur ritað svofellt bréf:

„Forseti Íslands gjörir kunnugt:

Forsætisráðherra hefur tjáð mér að vegna þess mikla efnahagsáfalls sem þjóðin hefur orðið fyrir hafi þeir flokkar sem nú standa að ríkisstjórninni orðið ásáttir um við myndun hennar að efna sem fyrst til almennra alþingiskosninga.

Samkvæmt tillögu forsætisráðherra og með vísan til 24. gr. stjórnarskrárinnar, nr. 33/1944, eins og henni var breytt með 5. gr. stjórnarskipunarlaga, nr. 56/1991, samanber 21. gr. laga um kosningar til Alþingis, nr. 24/2000, er með skírskotun til framanritaðs ákveðið að þing verði rofið 25. apríl 2009 og að almennar kosningar til Alþingis fari fram sama dag.

 

Gjört á Bessastöðum, 13. mars 2009.

Ólafur Ragnar Grímsson.

___________________

Jóhanna Sigurðardóttir.

Forsetabréf um þingrof og almennar kosningar til Alþingis.“

 

Virðulegi forseti. Núverandi ríkisstjórn var mynduð við sérstakar aðstæður og var henni ætlað að starfa stutt og sjá til þess að kosningum yrði flýtt, enda hafði orðið trúnaðarbrestur milli þings og þjóðar. Það hefur legið fyrir um nokkurt skeið að stefnt væri að því að almennar þingkosningar færu fram 25. apríl nk. Formlega er þó ekki boðað til kosninganna fyrr en nú með því að forsetabréf þetta hefur verið kunngjört. Er það í samræmi við skilmála stjórnarskrárinnar um að kjósa verði áður en 45 dagar eru liðnir frá því er gert var kunnugt um þingrofið. Nú verður hægt að hefja formlegan undirbúning kosninga, t.d. með utankjörfundaratkvæðagreiðslu og framlagningu kjörskrár.

Þetta er í fyrsta skipti sem tilkynnt er um þingrof á grundvelli 24. gr. stjórnarskrárinnar eftir að henni var breytt 1991. Með þeirri breytingu var komið í veg fyrir að forseti, með atbeina forsætisráðherra, gæti sent þingið heim samdægurs. Í raun fellur kjördagur því ætíð saman við þingrofsdag en áður fyrr gat þingrofið átt sér stað fyrr. Alþingi starfar áfram eftir sem áður enda er sérstaklega tekið fram í 24. gr. stjórnarskrárinnar, eins og henni var breytt árið 1991, að þingmenn haldi umboði sínu til kjördags. Engar hömlur eru á umboði þingmanna á þessu tímabili. Unnt er að leggja fram ný mál þótt tilkynnt hafi verið um þingrof og hægt er að afgreiða bæði almenn lög og stjórnarskipunarlög. Vonandi fær stjórnarskrármálið niðurstöðu og afgreiðslu í stjórnarskrárnefnd sem fjallar nú um það mál og þegar frumvarp til stjórnarskipunarlaga hefur hlotið samþykki samkvæmt 79. gr. stjórnarskrárinnar skal rjúfa Alþingi. Með þeirri tilkynningu sem hér er gerð grein fyrir eru skilyrði 79. gr. stjórnarskrárinnar uppfyllt þessu leyti.

Það er svo sjálfstæð ákvörðun hvenær fundum Alþingis verður frestað fyrir kosningar. Ekkert hefur verið ákveðið í því efni og flokkarnir hafa enn ekki náð samkomulagi þar um. Þegar það mun liggja fyrir mun ég flytja hefðbundna þingsályktunartillögu um frestun funda Alþingis og lesa upp forsetabréf þess efnis. Þess má geta að hingað til hefur skemmst liðið um mánuður frá frestun funda Alþingis til kjördags.

Nær öll þau mál sem ríkisstjórnin leggur áherslu á að fá afgreidd hafa nú verið lögð fram. Fyrir liggur að stjórnmálaflokkar hafa mismunandi sýn á hversu lengi þingið á að starfa á þessu vori og hvaða mál séu brýnust. Ég legg áherslu á að öll brýn mál þarf að afgreiða áður en þingi verður frestað. Þar er m.a. um að ræða mál sem varða stuðning við heimilin í landinu og atvinnulífið og endurreisn fjármálakerfisins, auk frumvarps til laga um breytingar á kosningalögum og stjórnarskipunarlögum sem flutt eru af fulltrúum fjögurra flokka. Listi yfir þau mál sem ólokið er hefur verið kynntur formönnum stjórnmálaflokka og jafnframt var þeim greint frá því að ef til vill gætu örfá mál bæst á þann lista. Ég vil undirstrika að þessi mál eru öll afar mikilvæg og þeim þarf að ljúka. Því er mikilvægt að þing starfi þangað til þau eru orðinn að lögum.