136. löggjafarþing — 103. fundur,  13. mars 2009.

gjaldþrotaskipti o.fl.

281. mál
[13:56]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Hæst. forseti. Ég þakka hv. þm. Álfheiði Ingadóttur fyrir skýr svör. Ég verð að segja að ég er mjög sátt við að þessi leið skuli vera farin því að ég hafði miklar áhyggjur af því að úthýsa ætti þessum verkefnum til lögfræðinga úti í bæ. Við framsóknarmenn lögðum einmitt til í frumvarpi okkar að þetta ferli yrði notað, að þetta færi í gegnum sýslumenn.

Hv. þm. Álfheiður Ingadóttir talaði um að það væri allsherjarnefnd sem legði tillögur fram varðandi veðskuldirnar og það vakti forvitni mína. Í ákvæðum til bráðabirgða kemur nefnilega fram að heimilt sé að kveða á um fleiri gjalddaga, greiðslufrest um tiltekinn tíma, nýjan lánstíma og skuldbreytingu vanskila, og að sá hluti skuldar sem fellur utan andvirðis eignar teljist til samningskrafna. Er þá verið að tala um að varðandi veðskuldir verði ekki felldar niður skuldir sem falla undir verðmæti veðsins?