136. löggjafarþing — 104. fundur,  16. mars 2009.

yfirfærsla lána milli gömlu og nýju bankanna.

[15:21]
Horfa

viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Virðulegi forseti. Það er rétt að nú stendur yfir vinna, sem verður reyndar rædd í utandagskrárumræðu á eftir, við að meta eignir eins og þær ganga á milli gömlu og nýju bankanna. Þegar rætt er um afskriftir í þessu samhengi er átt við það að kröfur eru ekki taldar vera á fullu verði, þ.e. gert er ráð fyrir því að t.d. lán innheimtist ekki nema að hluta. Það má auðvitað kalla það afskriftir en í því felst ekki uppgjöf skulda, því að eftir stendur að þeir sem taka við í slíkri kröfu, sem sagt nýju bankarnir, munu væntanlega reyna eftir megni að innheimta að fullu og ekki gefa eftir neinar skuldir þótt þeir hafi fengið þær í einhverjum tilfellum á lægra en fullu verði.

Vinnureglur við þetta mat eiga einfaldlega að endurspegla það sem menn telja við eiga, þ.e. horft er til þess hvers konar veð eru að baki lánum, hver er greiðslugeta lántaka og annað sem máli skiptir, t.d. hvort um erlent lán er að ræða eða innlent o.s.frv. Ég þekki ekki sjálfur þessar vinnureglur í þaula enda hef ég ekki komið að þessari vinnu, en við erum með sérfræðinga bæði innlenda og erlenda í þessari vinnu og ég veit ekki betur en þetta sé unnið eins vel og hægt er.