136. löggjafarþing — 104. fundur,  16. mars 2009.

endurreisn bankakerfisins.

[15:58]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (U):

Virðulegi forseti. Í þessu máli er nauðsynlegt að hafa í huga að endurreisn íslenska bankakerfisins verður ekki nema í samkomulagi við erlenda kröfuhafa. Við getum ekki komið á fót almennilega starfhæfu bankakerfi nema við náum að setja niður þær deilur og ná samningum um uppgjör á kröfum í gömlu bankana.

Ég tek undir það að auðvitað á að freista þess að meta þær kröfur á réttu verði þannig að yfirfærsla þeirra yfir í nýju bankana verði á því verði sem ætla má að innheimtist, en það er rétt að undirstrika það sem hér hefur komið fram að við það eru ekki kröfurnar afskrifaðar. Þeir sem skulda verða eftir sem áður að gera ráð fyrir því að þurfa að borga kröfurnar að fullu. Það verða ekki til nein verðmæti sem hægt er að deila út eftir almennum reglum til þeirra og annarra sem eru viðskiptavinir bankanna.

Í öðru lagi er rétt að hafa í huga og líta á það að bankakerfið þarf að hæfa því þjóðfélagi sem það á að starfa í. Við þurfum að sníða bönkunum stakk eftir vexti. Það var okkar ógæfa að við gerðum það ekki og við ættum að læra af því þannig að við ættum að leggja okkur fram um að sjá til þess að bankakerfið innan lands verði ekki stærra en þörf er á. Með því móti minnkum við áhættuna fyrir okkur til framtíðar litið.

Í þriðja lagi verða menn líka að hafa í huga að þótt ríkissjóður leggi mikla fjármuni sem eigið fé inn í þessa þrjá banka mun það eigið fé eða hlutafé verða selt þegar fram líða stundir með verulegum ágóða ef vel tekst til með uppgjör og starfrækslu þessara nýju banka. Ef menn vanda sig í þessu ferli er ekki útlit fyrir að það falli á skattgreiðendur heldur verði þvert á móti tekjulind fyrir íslenskan ríkissjóð.