136. löggjafarþing — 104. fundur,  16. mars 2009.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 114/2007, um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

361. mál
[16:40]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti á þskj. 708, um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar frá 2007, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn. Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar frá 28. september 2007, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn frá 1992, og til að fella inn í samninginn tilskipun framkvæmdastjórnarinnar um framkvæmd tilskipunar ráðsins 85/611/EBE um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum um fyrirtæki um sameiginlega fjárfestingu í framseljanlegum verðbréfum (UCITS) að því er varðar útskýringu á tilteknum skilgreiningum.

Innleiðing reglugerðarinnar kallar á lagabreytingar hér á landi og er gert ráð fyrir að frumvarp þar að lútandi verði lagt fram á næsta þingi.

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt. Kristinn H. Gunnarsson, Lúðvík Bergvinsson, Ragnheiður E. Árnadóttir og Þorgerður K. Gunnarsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins. Undir þetta nefndarálit skrifa Árni Þór Sigurðsson, formaður og framsögumaður, Þórunn Sveinbjarnardóttir, Björn Bjarnason, Siv Friðleifsdóttir og Valgerður Sverrisdóttir.