136. löggjafarþing — 105. fundur,  17. mars 2009.

vextir og verðtrygging.

401. mál
[15:55]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breyting á lögum um vexti og verðtryggingu sem flutt er af hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni og Grétari Mar Jónssyni. Ég vil byrja á því að segja að mér líst vel á umræðu um aðgerðir til að laga stöðu heimilanna. Ég spurði að því í andsvari rétt áðan hvort þessi 5% ættu að gilda aftur í tímann eða bara frá áramótum vegna þess að verðbólguskotið sem varð aðallega í október, nóvember og desember kemur illa við fólk. Þá var verðbólguhraðinn nálægt 30% og niður í 20%. Eftir áramót hefur hraði verðbólgunnar lækkað allverulega í hverjum mánuði og ég geri ráð fyrir að við munum jafnvel upplifa verðhjöðnun þegar líður á árið þannig að verðtryggðar skuldir lækka. Það er útbreiddur misskilningur hjá fólki að verðtryggðar skuldir geti bara hækkað eða staðið í stað. Ef verðbólgan lækkar lækka verðtryggðu skuldirnar líka. Hjá flestum innlánsstofnunum verður það aldrei lægra en upphaflega lánið en það er ekki það sem menn óttast í dag. Það getur verið að þegar kemur fram á sumar í júní/júlí að við upplifum að verðtryggðu lánin lækki og afborganirnar sömuleiðis.

Gengisvísitalan hefur lækkað allverulega. Hún lækkaði mikið frá áramótum og fram til stjórnarskipta. Frá stjórnarskiptum hefur hún haldið áfram að lækka nema núna síðustu 2–3 dagana hefur hún hækkað aftur vegna þess að við þurfum að ráða við vexti af útborgun á jöklabréfum. En staðan er sú, frú forseti, að vöruskiptajöfnuðurinn er jákvæður í hverjum einasta mánuði. Þjóðin er hætt að eyða og útflutningurinn malar gull, hann heldur áfram óbrotinn mjög sterkur, eins og ég hef margoft bent á. Það er heilmikil von í því, og ástæða til bjartsýni, að hafa tvöfalt meira ál til að flytja út á þessu ári en í fyrra, tvöfalt meira og jafnmikinn fisk. Reyndar er verðlag á báðum vörunum mjög lágt á heimsmarkaði og er vonandi að það lækki ekki. Vöruskiptajöfnuðurinn er því jákvæður og þannig styrkist gengi krónunnar stöðugt. Við þurfum reyndar að flytja út vexti af jöklabréfunum en ekki jöklabréfin sjálf. Það eru gjaldeyrishöft.

Það hefur í för með sér að vísitalan mun lækka. Það er ekkert sem hvetur hana áfram, ekki eftirspurn, bara gengið. Ef það er samkeppni og ef neytendur gæta þess að vera mjög vandlátir við að krefjast lækkunar mun vísitalan lækka. Gengistryggðu lánin eru strax farin að bæta margt þótt ekki sé nóg að gert en benda verður á að þau lán eru yfirleitt með lágum vöxtum. Þess vegna valdi fólk gengistryggðu lánin.

Talandi um verðtryggingu, mér finnst gæta mikils misskilnings um verðtryggingu. Hverjir eiga verðtryggðar eignir í landinu, frú forseti? Það eru ekki bankarnir. Bankar eiga ekki bankainnstæður. Það er alger misskilningur. Bankar taka peningalán með innlánum sem eru verðtryggð eða með bankabréfum sem eru verðtryggð eða með bankabréfum með öðrum hætti á markaði, kaupa íbúðalánabréf. Það eru lífeyrissjóðirnir, Íbúðalánasjóður og gamalt fólk oft og tíðum sem eiga verðtryggðar innstæður. Vilji menn skerða þær innstæður með því að skerða vísitöluna á einhvern hátt ganga menn á rétt þeirra sem hafa sparað og á lífeyrisréttinn. Ef menn ætla að skerða verðtryggingu er gamla fólkið með þeim fyrstu sem líða fyrir það, það er með lífeyri. Sumir lífeyrissjóðir eru í þeirri stöðu að þurfa að skerða réttindin í dag og þeir þyrftu að skerða þau enn frekar ef verðtryggingin yrði skert.

Svo er talað um það, og ég er hlynntur því, að verðtryggingin verði afnumin þegar færi gefst til. En væri ekki verðtrygging núna, hvað mundum við þá horfa upp á? Hvað mundu vextirnir þurfa að vera í 18% verðbólgu? Þeir yrðu væntanlega að vera 20%. Nema menn ætli sér að hlunnfara starfs… (Gripið fram í: Verðbólgan er hvort sem er 18%.) Einmitt, vextir þyrftu að vera 20% nafnvextir. Það þýðir að maður sem skuldar 30 millj. borgar 6 millj. bara í vexti. Hann gæti það engan veginn en hann gæti nokkuð auðveldlega ráðið við verðtryggt lán. Verðtryggingin er nefnilega á margan hátt góð fyrir skuldarann þó að skuldin hækki að sjálfsögðu sem hún gerir ekki með óverðtryggðu láni.

Verðlag á fasteignum er að lækka. Raunverðmæti fasteigna er að lækka og hefur lækkað um 22% frá því í október 2007 þegar það var hæst. Fara þarf fjögur ár aftur í tímann til að fá sama verðlag á fasteignum, þ.e. allir sem hafa keypt nýja íbúð, sína fyrstu íbúð á síðustu fjórum árum eru að tapa. Eignin hefur lækkað miðað við lánin. Allir hinir sem keyptu fyrir þann tíma eru enn í gróða og allir sem hafa keypt nýja íbúð, þ.e. bætt við sig eða minnkað við sig eða hvort heldur er síðustu fjögur árin eru enn með gróða af gömlu eigninni sem gekk upp í. Ég hugsa að það sé eingöngu það unga fólk sem keypti sína fyrstu íbúð á síðustu fjórum árum sem er virkilega að tapa á verðtryggingunni. Hinir eru að afsala sér gróða sem þeir fengu áður.

Þegar verð á íbúðum hækkaði um 30% á ári og vísitalan ekki um nema 4–5% talaði enginn um þann gífurlega hagnað sem varð þar sem menn hefðu jafnvel getað sleppt því að vinna í tvö, þrjú ár, þar á meðal ég vegna þess að íbúðin mín hækkaði svo mikið. Ég gat reyndar ekki séð það sjálfur en þetta var staðreyndin að íbúðaverð hækkaði óskaplega mikið á tímabili og þá græddu landsmenn heilmikið og þessum gróða eru þeir að tapa núna hægt og rólega. Þetta er ekki alveg svona einfalt. Það að fara að skerða verðtryggingu á öllum lánum, eins og hér er gert ráð fyrir, líka hjá þeim sem eru í gróða frá fyrri tíð er dálítið fráleitt. Svona almennar reglur til að laga stöðu örfárra eða tiltölulega fárra eru mjög hættulegar því að þær koma öllum til góða líka þeim sem þurfa ekkert á því að halda.

Talandi um lækkun á íbúðaverði þá má ég til með koma með það, herra forseti, sem gerist úti á landi og er búið að vera í 30–40 ár. Maður sem byggði nýtt hús á Ísafirði — og það ætti hv. 1. flutningsmaður að vita, ef hann byggði nýtt hús á Ísafirði þá tapar hann um leið — og setti kannski í það 20 millj. kr. gat ekki selt það nema fyrir 10 millj. daginn eftir að hann flutti inn. Eiginfjárstaða hans var komin í mínus 10 millj. bara við það að byggja hús úti á landi. Af hverju kvartaði enginn þá, herra forseti? Af hverju kvarta menn núna? (KVM: Þú hefur bara ekki heyrt það.) Hann var ekki eins hávær hópurinn sem krafðist leiðréttinga á þeim tíma en allir sem byggðu nýjar íbúðir úti á landi voru að tapa.

Þá er það spurningin með bölsýnina og svartnættið. Könnun sem ASÍ gerði, sem er reyndar orðið dálítið gömul, sagði að 7% landsmanna hefðu misst vinnuna. Það fer nokkurn veginn saman við þau 9% sem eru orðin atvinnulaus. Hún sagði líka að 14% hefðu lækkað í launum af ýmsum ástæðum, minni yfirvinna o.s.frv. Hvað segir þetta mér? Að tæplega 80% á þeim tíma höfðu hvorki misst vinnuna né lækkað í launum. Nú hefur staðan eflaust versnað síðan. Við skulum gera ráð fyrir því að 75% hafi ekki lækkað í launum eða 70% og 30% hafi lækkað í launum eða misst vinnuna. Gefum okkur það. Þá eru 70% eftir sem ekki hafa lækkað í launum og ekki hafa misst vinnuna. Sumir hafa meira að segja hækkað eitthvað í launum, sérstaklega öryrkjar sem voru hækkaðir um 20% fyrir áramót, lægstu launin úr rúmlega 150 þús. kr. í 180.

Menn þurfa rétt aðeins að gæta sín þegar þeir tala svona í svartnætti. Vissulega er staðan hjá þeim sem eru orðnir atvinnulausir mjög slæm, ég ætla ekki að gera of lítið úr því. Þetta er mikil hörmung, það er mannlegur harmleikur að verða atvinnulaus, jafnvel þó að það sé alveg að ósekju eins og á við um fólkið sem nú er atvinnulaust. Það sem verður atvinnulaust algerlega að ósekju, það var ekkert upp á það að klaga, það var bara tilviljun eins og t.d. hjá bönkunum hverjir unnu í utanlandsdeildinni og hverjir unnu í innanlandsdeildinni. Þeir sem unnu í utanlandsdeildinni misstu vinnuna. Það er mikill vandi og sérstaklega hjá því fólki sem hafði gírað sig upp í, eins og ég þekki dæmi um, milljón króna útgjöld á mánuði og missti svo allt í einu vinnuna. Það er að sjálfsögðu í miklum vandræðum, við skulum ekki gera lítið úr því. Við skulum leysa þann vanda sérstaklega. En að koma með lausnir sem leysa vanda allra, lækka verðtryggingu hjá öllum, líka þeim sem enn eru í gróða með íbúðirnar sínar, finnst mér ekki vera rétt. Það kostar allt of mikið.

Tillögur framsóknarmanna um 20% niðurfellingu skulda er sama marki brennd. Það er verið að lækka skuldir hjá öllum. Fyrir utan það, hvað gerðist ef ég mundi taka núna 100 millj. kr. lán og legði það inn á bankabók með bankabókina sem veð, fengi ég þá 20% lækkun á 100 millj.? Ég bara spyr. Spyr sá sem ekki veit.

Svona almennar og altækar aðgerðir til lausnar á vanda sem betur fer tiltölulega lítils hluta, finnst mér ekki vera rétt. Það eru 20–30% hugsanlega í miklum og mismiklum vanda og við þurfum að passa vel upp á þann hóp. Við þurfum að grípa til aðgerða og það er búið að grípa til aðgerða. Sett hafa verið lög um greiðsluaðlögun þar sem menn borga miðað við hækkun launa en ekki miðað við vísitöluna. Það er búið að taka það inn, það er búið að samþykkja það. Það er búið að gera heilmikið til að minnka kröfur sérstaklega á fyrirtæki um greiðslu á sköttum og öðru slíku. Í morgun var afgreitt úr efnahags- og skattanefnd frumvarp um það að menn geti dreift vörugjöldum og sköttum á lengri tímabil en verið hefur þannig að það er búið að gera heilmikið til að ráða bót á vanda þeirra tiltölulega fáu sem hafa lent í miklum vandræðum. En að fara að búa til algildar reglur sem gilda fyrir 70% líka finnst mér ekki rétt. Mér finnst ekki rétt að lækka verðtryggingu hjá manni sem tók lán og keypti íbúð árið 2004 áður en hækkunin byrjaði og er enn þá í hagnaði. Þá er í rauninni verið auka hagnaðartöku hans. Hann er ekki í vandræðum, ekki út af þessu. Menn eru kannski í vandræðum af því að þeir keyptu sér jeppa eða eitthvað slíkt en það er allt annar handleggur.

Gengistryggðu lánin eru að lagast heilmikið með styrkara gengi og ég vona að sú þróun haldi áfram þannig að þeir sem eru með gengistryggð lán sjái aftur töluvert mikla lækkun.

Herra forseti. Ég fagna allri umræðu um þessi mál og svona tillögu þurfum við endilega að ræða, bæði kosti og galla. Ég hef reyndar nefnt ýmsa galla við hana en kosturinn er sá að hún er náttúrlega altæk og einföld í framkvæmd og lagar stöðuna og hugsanlega og vonandi verður mengi þeirra sem þurfa á þessu að halda núll af því að verðbólguhækkunin í ár verði ekki 5%.