136. löggjafarþing — 108. fundur,  18. mars 2009.

skýrsla um afhendingaröryggi orku á Vestfjörðum.

399. mál
[14:41]
Horfa

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég tel að það sé samfélagslegt verkefni að sjá til þess að allir landshlutar búi við ásættanlegt orkuöryggi og það hefur margsinnis komið fram hjá mér að ég tel að svo sé ekki í tilviki Vestfjarða. Ég tel sömuleiðis að sú staða hamli uppbyggingu nýrra fyrirtækja í tilteknum greinum og ef hægt væri að bæta úr þessum vanda þá mundi það skipta mjög miklu máli fyrir sköpun starfa og fyrir það að efla grunngerð samfélagsins á þessum slóðum.

Hv. þingmaður spurði mig áðan um meginatriðin í þessari skýrslu. Í fyrsta lagi er farið þar yfir hinn samfélagslega kostnað vegna straumleysis og í öðru lagi er líka farið yfir þær grunnaðgerðir sem Landsnet er að ráðast í núna. Ég hef margsinnis farið yfir þær, m.a. nýlega, en ég get upplýst það hér að slegið er á að þær kosti um það bil 1 milljarð kr. Sömuleiðis eru þar reifaðar ýmsar aðrar mögulegar viðbótaraðgerðir, aðallega þrjár að því er mér finnst.

Það er náttúrlega í fyrsta lagi endurbætt varaafl með því að endurnýja varaaflsstöðvar o.s.frv. Í öðru lagi er það hin hefðbundna styrking flutningskerfisins en þar er það líka reifað, sem sagt tilkoma nýrrar raforkuvinnslu. Þar ræða menn um hugsanlega stækkun Mjólkárvirkjunar. Þar er sömuleiðis drepið á aðra virkjunarkosti en þar eru menn líka að velta fyrir sér þessum möguleika sem felst í Hvalárvirkjun.

Ég tel að það yrði mikið heillaspor ef tækist að koma málum svo fyrir að unnt væri að ráðast í þessa framkvæmd. Ég tel að það yrði heillaspor fyrir Vestfirðina og það skiptir líka máli fyrir ríkisstjórnina að geta tryggt að allir íbúar landsins búi við sambærilegt stig hvað varðar orkuöryggi. Mér hefur oft fundist sem menn skilji ekki að afhending orku og flutningur á orku er partur af samfélagsgerðinni og þegar við erum að tala um grunnþættina eigum við líka að beina sjónum okkar að þessum þætti.