136. löggjafarþing — 111. fundur,  23. mars 2009.

kaup Exista á bréfum í Kaupþingi.

[15:03]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Þann 10. febrúar 2006, fyrir réttum þremur árum, átti ég fund með forstjóra og lögfræðingi Fjármálaeftirlitsins. Tilefnið var frétt í Markaðnum sem dreift var með Fréttablaðinu þann 4. janúar sama ár. Þar stóð, með leyfi forseta:

„Hagnaður Exista á árinu 2005 verður vart undir þrjátíu milljörðum króna.“

Enn fremur stendur: „Exista festi kaup á fjögurra prósenta hlut í KB banka í nóvember sem margir telja að hafi losað um töluverða sölupressu á bréfum í bankanum og jafnframt styrkt stöðu félagsins sem stærsta hluthafans.

Voru öll sölutilboð á verðbilinu 600–650 „hreinsuð upp“ …“

„Félagið gaf út nýtt hlutafé að upphæð tuttugu milljarðar í desember og munu hluthafar hafa fengið mjög skamman tíma til að ganga frá innborgun, sem var notuð meðal annars til að fjármagna hlutafjárkaupin í KB banka.“

Hér er um að ræða mjög greinilegt dæmi um „market manipulation“, markaðsmisnotkun, og ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann kannist við þessa frétt og hvort hann kannist við til hvaða viðbragða Fjármálaeftirlitið greip í kjölfarið þegar þessi frétt birtist í Markaðnum sem er fylgirit Fréttablaðsins sem öll þjóðin les. Ég sem formaður efnahags- og skattanefndar bað um sérstakan fund til að benda Fjármálaeftirlitinu á þetta mál.