136. löggjafarþing — 112. fundur,  24. mars 2009.

framganga samgönguáætlunar.

[16:34]
Horfa

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka enn á ný bæði fyrirspyrjanda og þeim þingmönnum sem hafa tekið þátt í þessari umræðu um framkvæmd samgönguáætlunar. Það er eins og gengur og gerist að sitt sýnist hverjum og umræður eru alltaf líflegar og góðar. Ég held að ekki sé mikill ágreiningur hér á hinu háa Alþingi um mikilvægi samgönguframkvæmda, heldur frekar um röðunina. Þannig hefur það verið alla þá tíð sem ég hef setið á Alþingi og ég þekki vel til þeirrar umræðu eftir að hafa setið í samgöngunefnd alla þingtíð mína.

Hér hafa að sjálfsögðu komið fram margar spurningar, sem því miður er ekki hægt að svara á þeim tveimur mínútum sem mér eru ætlaðar. Með forgangsröðun er það rétt sem kom fram hjá hv. þm. Jóni Bjarnasyni með minni verktaka og minni verk, hugsunin á bak við þau stóru verk sem boðin eru út núna eru þau góðu tilboð sem við fáum og það sparast þá til annarra verka. Minni verkin fara að koma til útboða þegar við sjáum fyrir endann á stærstu verkunum sem við erum að bjóða út, og talað hefur verið um.

Hér hefur líka verið rætt um samgöngumiðstöð. Ég á von á því, virðulegi forseti, að innan eins til tveggja daga takist okkur að klára nýtt samkomulag við borgarstjórann í Reykjavík um það mikla og brýna verk. Vonandi gengur það eftir sem við erum að vinna að.

Ég hef auðvitað sagt að aukið svigrúm skapist með þessu, en hv. fyrirspyrjandi spyr hvar skera skuli niður. Það er vandamál næstu missira, við vitum ekki núna hvaða peninga við fáum til samgöngumála á næsta ári og næstu árum þar á eftir. Nú sjáum við hins vegar fyrir okkur að skera ekki beint niður, heldur fresta ýmsum verkum vegna þess að þau eru ekki tilbúin. Aðalatriðið, virðulegi forseti, er að geta þess að þrátt fyrir (Forseti hringir.) þetta vandræðaástand sem er í þjóðfélaginu verður þetta ár annað mesta framkvæmdaár Íslandssögunnar hvað varðar vegamál. (Forseti hringir.) Það mesta var í fyrra og ég held að þetta séu góð skilaboð frá hinu háa Alþingi vegna þeirra miklu verka sem þarf að vinna í samgöngumálum á Íslandi.