136. löggjafarþing — 117. fundur,  30. mars 2009.

stjórnarsamstarf eftir kosningar.

[15:17]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ljóst er að rafmagnað samband er á milli stjórnarflokkanna og það er álit þeirrar er hér stendur að þetta rafmagnaða samband þurfi jarðtengingu. Það væri ekki til bóta ef hér yrði í landinu hrein vinstri stjórn eftir kosningar. [Kliður í þingsal.] Það þarf jarðtengingu og það er alveg rétt sem kom fram hjá hæstv. ráðherra, formanni Vinstri grænna, að framsóknarmenn hafa talað fyrir miðjustjórn. Það er alveg rétt og það hefur formaður flokksins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, gert.

Við teljum nefnilega mjög brýnt að hér verði öflugt atvinnulíf. Það á að skapa þjóðinni tekjur og við teljum ekki að erlendar skuldir verði greiddar með almennt hærri sköttum. Það þarf að auka framleiðsluna til að auka gjaldeyristekjurnar. Þar hafa vinstri flokkarnir verið mjög tvístígandi. Þannig að það er rétt sem hæstv. (Forseti hringir.) ráðherra segir, við viljum tala fyrir miðjustjórn (Forseti hringir.) en þá þarf góða jarðtengingu á þessa vinstri sveiflu sem nú er í samfélaginu.