136. löggjafarþing — 117. fundur,  30. mars 2009.

stjórnarsamstarf eftir kosningar.

[15:18]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Það er út af fyrir sig vel boðið hjá Framsóknarflokknum að bjóðast til þess að verða jarðskautið. Enda er jörðin yfirleitt guli og græni þráðurinn í rafmagnsköplunum og það þarf að tengja þá einhvers staðar. En straumurinn kemur eftir hinum þráðunum. [Hlátur í þingsal.] Krafturinn kemur eftir hinum þráðunum þannig að mikilvægt er að hafa það í huga.

Að sjálfsögðu vilja allir flokkar öflugt atvinnulíf. Að sjálfsögðu er baráttan gegn atvinnuleysi eitt mikilvægasta forgangsverkefni íslenskra þjóðmála. Að sjálfsögðu verðum við að reka þjóðarbúið á næstu árum með miklum afgangi í viðskiptum við útlönd, öðruvísi ráðum við aldrei við skuldirnar. Þetta leiðir allt af sjálfu sér.

Það er engin leið og hvaða ríkisstjórn sem er mun þurfa að fara einhverja blandaða leið í glímunni við ríkisfjármálin. Öðruvísi er þetta ekki hægt. Það er veruleikinn. Veruleikinn mun taka af mönnum völdin og ég vara Sjálfstæðisflokkinn við því að ætla að reyna að fara inn í þessa kosningabaráttu þannig að hann telji mönnum trú um að það sem ekki er hægt sé hægt. [Hlátur í þingsal.] Það sem er ekki hægt sé ekki hægt.

Og (Forseti hringir.) ég vara alla flokka við því að reyna að fara á einhverjum ódýrum (Forseti hringir.) forsendum í gegnum kosningabaráttuna og hafa það á bakinu ef þeir (Forseti hringir.) skyldu komast til valda.