136. löggjafarþing — 120. fundur,  31. mars 2009.

tollalög og gjaldeyrismál.

462. mál
[23:23]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla aðeins að benda hv. þingmanni á þegar hann talar um haftabúskapinn sem Sjálfstæðisflokkurinn leiddi yfir okkur, að hv. þingmaður var hluti af þeim stjórnarmeirihluta sem samþykkti, lagði fram og mælti fyrir því frumvarpi sem við höfum fjallað hér um, þ.e. gjaldeyrishöftunum. Þannig að hann er ekki alveg saklaus af þessu.

En það er gaman að upplifa það að hv. þm. Pétur Blöndal gat sér rétt til áðan í ræðu sinni, þegar hann spáði því að einhver af Evrópusinnunum í Samfylkingunni kæmi hingað upp til að ræða um Evrópusambandið og aðild Íslands að því í tengslum við þetta mál. Ég hef sagt að við þurfum að horfa til framtíðar í gjaldmiðilsmálum en ég er ósammála hv. þingmanni um að innganga Íslands í Evrópusambandið leysi allan þann vanda sem við er að glíma og alls ekkert endilega þennan gjaldmiðilsvanda. Það liggur fyrir að með aðild Íslands að Evrópusambandinu og upptöku evru í kjölfarið mundi okkur ekki takast að gera það fyrr en eftir svona 8 eða 9 ár. Þannig að ég hef verið talsmaður þess að við skoðum aðrar og greiðari leiðir í gjaldmiðilsmálum, eins og einhliða upptöku alþjóðlegs gjaldmiðils, annaðhvort til lengri tíma eða skemmri, hugsanlega sem fyrsta skref inn í myntráð líkt og Hong Kong búar gerðu árið 1983 með góðum árangri. Þannig að ég hef nú lagt mig fram um að vera með alls kyns hugmyndir í þeim efnum en því miður hefur hv. þm. Árni Páll Árnason verið svo blindur á eina leið að hann hefur ekki verið (Forseti hringir.) reiðubúinn til að ræða aðrar.