136. löggjafarþing — 122. fundur,  1. apr. 2009.

opinn fundur í fjárlaganefnd – afgreiðsla sérnefndar á frumvarpi um stjórnarskipunarlög.

[13:40]
Horfa

Björn Bjarnason (S):

Herra forseti. Ég vil skýra þingheimi frá því undir þessum lið, Störf þingsins, að sá óvenjulegi atburður gerðist í morgun í sérnefnd um stjórnarskrármál að þar var tekið út mál án þess að samstaða næðist um það í nefndinni. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir okkar sjálfstæðismanna til að skapa samstöðu um þetta mál í stjórnarskrárnefndinni var því algerlega hafnað. Þetta er í þriðja sinn í sögu þingsins sem mál er tekið út með þessum hætti og stofnað til þess hér í þriðja sinn að taka stjórnarskrármál fyrir í ágreiningi eins og hér er uppi.

Ég tel að sá atburður sem gerðist í morgun og framvinda málsins í sérnefndinni sé með þeim hætti að full ástæða sé til þess að þingheimur fái að heyra hvernig að málum var staðið. Þegar að því var komið að mál höfðu verið kynnt í nefndinni, gögn lögð fram og rætt við þá sem til kallaðir höfðu verið og við sjálfstæðismenn hófum að benda á hvað við gætum gert til þess að ná sátt í málinu, sá formaðurinn í nefndinni enga ástæðu til að gefa tíma til slíkra viðræðna. Málið snerist þá fyrst og fremst um að ljúka fundinum og taka málið út.

Ég met umræðurnar í nefndinni í morgun þannig, virðulegi forseti, að hægt hefði verið með vilja að ná samkomulagi í þessu máli. En úr því að formaðurinn kaus þessa leið, að taka málið út án þess að reyna til þrautar að ná samkomulagi, sé ég ekki annað en að harðar deilur verði um málið í þingsalnum.