136. löggjafarþing — 123. fundur,  2. apr. 2009.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

397. mál
[00:14]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það sitja enn þungt í mér viðbrögð hv. þm. Katrínar Júlíusdóttur hér áðan. Hún lýsti því yfir að hér væru mjög mörg brýn mál sem þyrfti að ljúka og við ættum að klára umræðu um hér í nótt. Gott og vel, ég verð samt að segja, virðulegi forseti, að áhugi stjórnarþingmanna á þessum málum virðist vera ansi takmarkaður ef marka má áhuga þeirra á umræðunni sem fer hér fram. Þau sjást hér tvö í þingsalnum núna og það er í fyrsta skipti, hæstv. forseti, í langan tíma sem við sjáum stjórnarliða hér í salnum við þessa umræðu.

Miðað við það hvað þau virðast vera orðin þreytt, eða hvað annað heldur þeim frá þessu, sýnir ekki beint að hér sé um mjög brýn mál að ræða og ég held að það væri þá rétt að hæstv. forseti (Forseti hringir.) tæki fundarhlé og kannaði áhuga þessara þingmanna á að fylgja eftir þeim mikilvægu málum sem hér er talað um.