136. löggjafarþing — 123. fundur,  2. apr. 2009.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

397. mál
[01:57]
Horfa

Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er greinilegt að hæstv. iðnaðarráðherra fylgdist ekki með ræðu minni hér áðan. (Gripið fram í.) Nei, nákvæmlega ekki, hæstv. iðnaðarráðherra, vegna þess að ég las upp úr bréfi sem mér hefur borist og reyndar nokkrum öðrum aðilum, m.a. Rarik, iðnaðarráðuneytinu, samgönguráðuneytinu, iðnaðarnefnd Alþingis, SAS, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, þingmönnum Suðurkjördæmis og fjölmiðlum. Bréfið er dagsett 17. mars, það er þá sem þessir aðilar taka málið upp við okkur þingmenn.

Ég fylgist ekki dag frá degi með því hvernig Rarik verðleggur þjónustu sína og rafmagn en það er þetta bréf sem ég er að vitna í og það er skrifað 17. mars. Þá er verið að fara yfir það hvernig hefur verið gengið á svig við þann aðlögunarsamning sem er í gildi.