136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[11:43]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég vil taka undir orð hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur. Það liggur fyrir að þegar frumvörp til stjórnarskipunarlaga eru til umræðu á Alþingi þá kallar það á mikla umræðu.

Það frumvarp sem hér liggur fyrir er lagt fram í miklu ósætti innan þingsins og hjá þeim aðilum sem leitað hefur verið álits hjá úti í samfélaginu er mikið ósætti um marga þætti þess. Það er því óhjákvæmilegt fyrst málið er að koma til 2. umr. að það verði rætt ítarlega og rökræður fari fram um það fram og til baka. Það er óhjákvæmilegt. Stjórnarskipunarlög eru grundvallarlöggjöf og krefjast mikillar umræðu.

Mér finnst það sæta furðu að hæstv. forseti skuli hafa sett mál sem ætla mætti að góð samstaða gæti náðst um, mál sem gætu fengið hraða afgreiðslu í þinginu, á dagskrá á eftir stjórnarskipunarlögunum. Eðlilegra væri að breyta röðinni á þann veg að við tökum þessi brýnu atvinnumál og hagsmunamál heimilanna fyrir og geymum stjórnarskipunarlögin þar til við erum búin að ljúka þeim brýnu verkefnum.