136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[17:18]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Atli Gíslason lýsti því undir lok ræðu sinnar að vegna aðstæðna í þjóðfélaginu væri nauðsynlegt að taka stjórnarskrárvaldið og færa það sérstöku stjórnlagaþingi. Því spyr ég: Finnst honum samræmi í því að segja þetta og leggja hér fyrir þrjár efnislegar breytingar á stjórnarskránni til viðbótar við þetta stjórnlagaþing og fela þessum þingmönnum, sem hann hefur lýst sem óhæfum eða vanhæfum til þess að takast á við stjórnarskrárbreytingar, að afgreiða þær?

Ef hv. þm. Atli Gíslason trúir á hugmyndina um stjórnlagaþing, ef hann hefur trú á því að hún virki, hefði ég haldið að hann teldi að stjórnlagaþingið ætti að fjalla um þau atriði sem þarna koma fram. Ég hlýt því að spyrja hv. þingmann: Kemur hann ekki auga á þá mótsögn sem er fólgin í því að vera annars vegar með 1.–3. gr., sem fela í sér breytingar á núgildandi stjórnarskrá, og leggja um leið til að sett verði á fót stjórnlagaþing í náinni framtíð sem hefur það hlutverk að hafa með höndum heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar?

Þetta er í mínum huga mótsögn. Þetta er í mínum huga algjör rökleysa. Lögmannafélag Íslands er sammála mér um þetta og fleiri umsagnaraðilar. Fleiri umsagnaraðilar taka undir þetta en ég sé ekki að í málflutningi eða nefndaráliti meiri hlutans í sérnefndinni sé með nokkru móti reynt að svara þessum sjónarmiðum. Ég velti því líka fyrir mér hvort hv. þm. Atli Gíslason taki ekkert mark á þeim fjölmörgu umsagnaraðilum sem leggja áherslu á að vanda verði til verka, standa vel að undirbúningi og afgreiðslu stjórnarskrárfrumvarpa og reyna að ná um þau sem víðtækastri sátt. Finnst honum þau sjónarmið engu máli skipta?