136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

um fundarstjórn.

[20:21]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Herra forseti. Sú umræða sem hér hefur verið í dag er afar mikilvæg. Hér er um að ræða stjórnarskipunarfrumvarp og það er eðlilegt að slíkt mál taka töluverðan tíma í umræðunni enda kemur í ljós að frá því að umræðan hófst hafa aðeins sjö ræður verið haldnar. Vegna lengingar á ræðutíma og vegna þess hve umfangsmikið málið er þá tekur töluverðan tíma að ræða það. Það er vont að bjóða upp á það að þetta mál sé rætt um miðjar nætur — ég tala nú ekki um það þegar við höfum verið að vinna hér fram eftir nóttu undanfarið. Til viðbótar þá er opinn fundur í fyrramálið í samgöngunefnd og það er mikilvægt að fulltrúar í samgöngunefnd, og þeir sem bera hag og virðingu þingsins fyrir brjósti, séu skýrir í hugsun og klárir á því hvað fram fer þar. Mér finnst að forseti ætti að leitast við að haga þessu þannig að við séum ekki að vinna lengur en til tólf í kvöld.