136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

um fundarstjórn.

[20:39]
Horfa

Kjartan Ólafsson (S):

Herra forseti. Ég nefndi það áðan að að afloknum kosningum 2007 hefðu verið tekin upp ýmis nýmæli sem áttu að vera til bóta varðandi þinghaldið. Meðal annars var komið á fót sérstakri eftirlitsnefnd sem hefur það hlutverk að kanna og skoða hvernig Alþingi er rekið, hvernig nefndir þingsins vinna og hvernig störf þingsins ganga.

Ég held að þetta sé skólabókardæmi um það sem ekki á að vera, það sem hefur gerst í þinginu eftir að þessi minnihlutavinstristjórn tók við. Það er stjórnleysi. Fyrst áttum við að upplifa bankahrun og síðan hreinlega hrun stjórnmálaflokkanna, þeirra stjórnarflokka sem nú eru, vegna þess að á Alþingi viðgengst algjört stjórnleysi. (Gripið fram í.) Það verður gott efni fyrir þá nefnd sem er að vinna að eftirlitsmálum Alþingis að fara yfir og ofan í það hvað gerðist eftir að þessi nýja minnihlutastjórn tók við.