136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[23:18]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það er skiljanlegt að nokkrir af flutningsmönnum þessa frumvarps séu annaðhvort uppteknir eða fjarri til að undirbúa verk morgunsins, margir þeirra gegna mikilvægum störfum. Þetta er auðvitað vandamál þegar tekin er ákvörðun um að ræða jafnmikilvægt mál og stjórnarskrá lýðveldisins Íslands hér að kvöldlagi og yfir okkur vofir að ræða það fram á nóttina. En þar sem hér er um jafnmikilvægt mál að ræða og þetta fyrir þjóðina og þingið er það auðvitað lágmarkskrafa að þeir sem fluttu frumvarpið, lögðu það fram, séu í þingsalnum til að eiga orðastað við þingmenn um þetta mikilvæga mál.

Ég geri það að tillögu minni, virðulegur forseti, að við gerum hlé á umræðu hér úr því að forseti hefur tilkynnt okkur að gerðar hafi verið ráðstafanir til að hafa samband við hv. þingmenn og bíðum komu þeirra þannig að við getum haldið áfram að ræða þetta mikilvæga mál við eðlilegar kringumstæður (Forseti hringir.) sem eru samboðnar þinginu og samboðnar þjóðinni.