136. löggjafarþing — 125. fundur,  3. apr. 2009.

leiðtogafundur NATO.

[11:10]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Við erum að ræða liðinn Störf þingsins en það er alveg ljóst að fyrirspyrjandinn er að ræða störf ráðherra og látum það vera. Það er alveg greinilegt að sjálfstæðismenn vilja losna við hæstv. forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur, úr landi (Gripið fram í.) og ég hef þann skilning á því að Sjálfstæðisflokkurinn vilji það. Fyrir utan það (Gripið fram í.) gerir hann allt til að koma hæstv. forsætisráðherra sem fyrst úr landinu. (Gripið fram í.)

Auðvitað er alltaf best að forsætisráðherra sæki svona fundi. En menn vita hvaða staða er uppi í samfélaginu í dag (Gripið fram í: … stjórnlagaþingið.) þannig að það er mjög eðlilegt að hæstv. utanríkisráðherra sæki fund af þessu tagi við þær aðstæður sem nú ríkja.

Ég kem hér upp aðallega til að ræða þau orð sem féllu hjá hv. þm. Ragnheiði Elínu Árnadóttur um að verið væri að stinga stjórnlagaþingi upp í Framsóknarflokkinn. Þetta er ekki mjög smekklegt, virðulegi forseti. (Gripið fram í.) Ég ætla að rifja upp forsöguna: (Gripið fram í.) Á sínum tíma reyndi Framsóknarflokkurinn að gera sitt til að koma frá óstarfhæfri ríkisstjórn sem bar helst það einkenni að vera ákvarðanafælin. Það var ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks. Henni var komið frá. Við veittum nýrri ríkisstjórn minnihlutastuðning og eitt af þeim skilyrðum sem við settum var einmitt stjórnlagaþing (Gripið fram í.) til þess að hægt sé að aðgreina valda þætti í þessu landi betur, dreifa völdum. Það verður að dreifa völdum í landinu. Fólk hefur séð að völd hafa safnast á allt of fáar hendur og því fór sem fór. (Gripið fram í.) Með því að kjósa stjórnlagaþing í samfélaginu … (Gripið fram í.) — Það á að fá vald til að (Gripið fram í.) breyta stjórnarskránni, (Gripið fram í.) leggja fram drög (Forseti hringir.) að nýrri stjórnarskrá sem þjóðin kýs um. (Forseti hringir.) Það er í boði Framsóknarflokksins (Forseti hringir.) að hér komi (Gripið fram í.) sem fyrst ný stjórnarskrá (Forseti hringir.) sem eykur lýðræði í landinu.