136. löggjafarþing — 126. fundur,  4. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[13:16]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég tek undir þessi orð hv. þm. Sturlu Böðvarssonar og það er raunar fyrir utan þessa rannsóknarnefnd, sem hv. þm. Sturla Böðvarsson hafði sem forseti forgöngu um að koma á laggirnar. Reyndar má geta þess að hann hafði einnig forgöngu um það, þegar hann sat á forsetastóli hér í þinginu, að koma af stað vinnu til þess að efla eftirlits- og rannsóknarhlutverk Alþingis. Hann kom á fót vinnuhópi sem undanfarna mánuði hefur unnið að því verki undir forustu Bryndísar Hlöðversdóttur. Væntum við mikils af niðurstöðum úr því starfi.

Ég ætlaði að skjóta því að hæstv. forseta, sem er nú horfinn af vettvangi, en vonandi tekst að koma skilaboðum til hans, að formið á umræðunni hér á mánudaginn (Forseti hringir.) gæti verið í formi munnlegrar skýrslu sem utanríkisráðherra flytti og fulltrúum þingflokka gæfist síðan kostur á að ræða hana. (Forseti hringir.) Það er auðvitað verkefni forseta ásamt þingflokksformönnum að komast að niðurstöðu um formið á því en þetta er hugmynd sem mér finnst ekki eiga illa við í sambandi við mál af þessu tagi.