136. löggjafarþing — 126. fundur,  4. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[14:36]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég leyfi mér í upphafi máls míns að mótmæla þeim fullyrðingum hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar að ég komi í ræðustól til þess að ræða breytingar á stjórnarskránni og haldi þar með uppi málþófi. Þetta er 2. umr. þessa mikilvæga máls, ég tók ekki til máls við 1. umr., það er 2. umr. núna og ég hafna því alfarið, hæstv. forseti, að vera vænd um málþóf þó að ég telji mér skylt að ræða málið.

Við ræðum breytingar á stjórnarskránni og sumir þingmenn hafa talað á þann veg að þær breytingar sem hér eru til umræðu snúist að einhverju leyti um bankahrunið og efnahagsvanda þjóðarinnar. Hvernig má það vera, hæstv. forseti, að þær breytingar sem hér eru lagðar til á stjórnarskránni geti verið lykill að því að takast á við vanda vegna bankahruns? Fyrir liggur skýrsla sem unnin var fyrir ríkisstjórnina, fyrir íslensk stjórnvöld, skýrsla sem unnin var af Finnanum Kaarlo Jännäri, skýrsla sem sýnir og segir að löggjöfin sjálf var ekki ástæða bankahrunsins. Því spyr ég, hæstv. forseti: Hvers konar sýndarmennska er það eiginlega og hvernig geta þingmenn leyft sér að nota stjórnarskrána með þessum hætti? Ef einhvern tíma má kalla þingmenn lýðskrumara er það nú, þingmenn sem nýta sér stjórnarskrána með þessum hætti, segja að breytingar á henni snúist að einhverju leyti um bankahrun og efnahagsvanda þjóðarinnar, nýta sér stjórnarskrána með þessum hætti, grundvöll stjórnskipulags íslenska lýðveldisins, til að slá ryki í augu fólks og afla sér stundarvinsælda.

Framsóknarflokkurinn setti skilyrði fyrir stuðningi sínum við ríkisstjórn, að verja núverandi minnihlutaríkisstjórn vantrausti, og það var að hún tæki upp á sína arma hugmynd Framsóknarflokksins um stjórnlagaþing. Það hlýtur að teljast í hæsta máta vafasamt að stjórnmálamenn skuli gera sér það að leik að taka sjálfa stjórnarskrána í gíslingu þegar dregur að kosningum til að reyna að ná sér í sérstaka aðstöðu gagnvart ríkisstjórn og innan ríkisstjórnar. (Gripið fram í: Þetta er ótrúlegt.)

Virðulegur forseti. Stjórnarskráin er grundvöllur stjórnskipulags íslenska lýðveldisins. Hún mælir annars vegar fyrir um reglur er fjalla um vald handhafa ríkisvaldsins, þ.e. löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald, og hins vegar um mannréttindi borgaranna og þær takmarkanir og skyldur sem hvíla á handhöfum ríkisvalds gagnvart almenningi í landinu. Það blasir við að ekki hefur farið fram málefnaleg og vönduð umræða um þetta mál í þjóðfélaginu á þeim skamma tíma sem liðinn er frá því að frumvarpið var lagt fram. Það er afar eðlilegt að engin málefnaleg umræða hafi farið fram í þjóðfélaginu á svo skömmum tíma. Það vekur hins vegar furðu að keyra á frumvarpið í gegnum Alþingi á fáeinum dögum rétt fyrir kosningar, grundvallarbreytingar á grundvallarlögum lýðveldisins.

Sérfræðingar og samtök sem leitað hefur verið umsagnar hjá í meðförum málsins á Alþingi eru nánast öll á einu máli um að málið sé ekki fullunnið og að tíminn sem gefinn hafi verið til umsagnar sé of naumur. Ég ítreka það sem ég sagði í upphafi máls míns, þegar þingmenn Sjálfstæðisflokksins taka til umræðu þetta mikilvæga mál eru þeir vændir um málþóf. Stjórnarskráin skiptir mig jafnmiklu máli og örugglega flesta aðra landsmenn og ég hef á því skoðun þegar henni á að breyta og með hvaða hætti það er gert. Ég tel það skyldu mína sem þingmanns að láta þær skoðanir mínar í ljósi.

Virðulegur forseti. Kannski er ekki nokkurt mark takandi á þingmönnum í stjórnarandstöðu, það er e.t.v. frekar takandi mark á umsagnaraðilum og þá er vert að líta á umsagnirnar. Vísum fyrst í Skúla Magnússon þar sem hann segir:

„Texti stjórnarskrár er í besta falli einn þáttur í þeirri viðleitni að koma á ákveðinni samfélagsskipan. Ef stjórnarskrá er ekki framfylgt og hlýtt af heilindum af öllum þeim sem í hlut eiga, ekki síst (en þó ekki eingöngu) valdhöfum, duga hástemmdar valddreifingar-, lýðræðis- og mannréttindayfirlýsingar skammt. Án hollustu við grunngildi stjórnskipunarinnar — tilgang hennar, grunnrök, þá grundvallarhagsmuni sem hún á að þjóna — verður engin stjórnarskrá samfélaginu til bjargar, hversu ítarleg og vel orðuð sem hún er. Þetta mætti styðja með dæmum úr almennri sögu stjórnarskráa en auk þess er íslensk stjórnarskrársaga ekki síður lærdómsrík að þessu leyti. Það er hættulegur barnaskapur að halda að ný og fögur stjórnarskrá muni verða allra meina bót.“

Þeir umsagnaraðilar sem sendu inn umsagnir eru flestir á einu máli um að málshraðinn og málsmeðferðin hefði átt að vera með öðrum hætti. Davíð Þór Björgvinsson, Sigurður Líndal, Ragnhildur Helgadóttir, Samband íslenskra sveitarfélaga, Lögmannafélag Íslands, Ágúst Þór Árnason, Samorka, HS Orka, Rarik og svo mætti lengi telja — allir þessir aðilar telja að málsmeðferðin og sá hraði sem er í þessu frumvarpi sé óviðunandi. Þetta eru hagsmunaaðilar og fólk úti í samfélaginu, hluti þjóðarinnar sem telur að málsmeðferðin sé óásættanleg, henni sé ábótavant og betur hefði þurft að standa að málum. Því erum við sjálfstæðismenn sammála.

Margir aðilar fjalla líka um 1. gr. sem tengist auðlindum. Ég tek fram í upphafi, hæstv. forseti, að ég get tekið undir 1. gr. um að náttúruauðlindir skuli vera sameign þjóðarinnar. (Gripið fram í: Nú?) (Gripið fram í: Það er fróðlegt …) (Gripið fram í: Jæja.) Við breytinguna sem er í 1. gr. veita hins vegar æðimargir þá umsögn að það þurfi að vera hafið yfir allan vafa og alla réttaróvissu hvað felist í henni. Ég get tekið undir það og vísa þá aftur í texta frá Skúla Magnússyni:

Stjórnarskráin þarf að vera með þeim hætti að hún sé hafin yfir allan vafa og ekki túlkunaratriði fyrir einstaka lögmenn eða dómstóla þegar kemur að því að skera úr um hvort er rétt eða rangt.

Fjöldinn allur af fólki, hagsmunaaðilar, hluti þjóðarinnar gerir sér grein fyrir og vill að við ræðum frekar og betur 1. gr.

Í 2. gr. er m.a. rætt um að leggja breytingar á stjórnarskránni fyrir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég segi fyrir mitt leyti að ég skil ekki þann sem ekki getur verið samþykkur því. (Gripið fram í: Nú?) Það kemur hins vegar jafnt fram í athugasemdum um þetta frumvarp að það þurfi að setja skýrari reglur um með hvaða hætti. Mér finnst, og tala þá sem einstaklingur í þessu samfélagi, þingmaður, hluti þjóðarinnar, hins vegar ekki hægt að setja í 2. gr. um breytingar á stjórnarskrá að það sé lágmarkshluti kosningarbærra manna sem nægi til að samþykkja breytingar á stjórnarskránni. Stjórnarskráin er grundvöllur lýðveldisins og við þurfum að gera þá kröfu í þjóðaratkvæðagreiðslu að í það minnsta helmingur kosningarbærra manna í landinu samþykki breytingar á stjórnarskrá.

Á sama hátt tel ég að í 5. gr. stjórnarskrárinnar ætti að standa að enginn geti orðið forseti Íslands nema að hann hafi að baki sér í það minnsta 50% kosningabærra manna í landinu, hafi menn ekki hlotið það í fyrstu umferð skuli kjósa aftur á milli þeirra tveggja efstu sem í upphafi náðu þeim sætum. Á sama hátt ætti að fara með breytingar á stjórnarskránni.

Í 3. gr. segir að þjóðin sjálf — og við þingmenn erum hluti þjóðarinnar — eigi að geta krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um tiltekin mál í samfélaginu. Einir sex aðilar telja þessa grein til bóta, hún sé réttarbót fyrir fólkið í landinu eins og einhvers staðar stendur hér, en hins vegar þurfi að fara varlega með hana. Menn þurfa að velta fyrir sér með hvaða hætti eigi að vera hægt að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um tiltekin mál. Hvaða mál eiga það að vera? Ef setja á þetta inn í breytingar á stjórnarskrá þarf verulega að skerpa á því hvað alvarleg mál eru. Hvað á að vera hægt að fara fram á að setja í þjóðaratkvæðagreiðslu?

Ég bendi á að a.m.k. enn þá eru í það minnsta 50.000 Íslendingar í Sjálfstæðisflokknum. (BJJ: Hve margir?) Að minnsta kosti 50.000 Íslendingar eru í Sjálfstæðisflokknum. Ég sagði enn þá, hv. þm. Birkir Jón Jónsson. (Gripið fram í.) Miðað við þetta gætu þeir hæglega farið fram á þjóðaratkvæðagreiðslu um æðimörg mál ef út í það væri farið. Ég er ekki viss um að þeir sem settu þetta hér inn hafi haft það neitt sérstaklega í huga þegar þeir veltu fyrir sér hversu marga þyrfti til að knýja fram þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég get líka, hæstv. forseti, fallist á þjóðaratkvæðagreiðslu til handa mér, þjóðinni, þegar um mikilvæg málefni er að ræða. (BJJ: Þetta er allt á uppleið.) (Gripið fram í.)

Forseti. 4. gr. kveður á um stjórnlagaþing. Ég hef hins vegar töluvert aðra afstöðu til þeirrar greinar og mun koma að henni síðar. En ég bendi á að fjöldi umsagnaraðila lætur í ljósi þá skoðun að málsmeðferðinni sé ábótavant, að tíminn sem gefinn hafi verið til umsagna hafi verið of naumur. Mér finnst ástæða til fyrir hv. Alþingi að taka mark á þessum umsögnum, virða það að sendar eru út beiðnir um umsagnir og umsagnirnar eru í þessa veru. Þó að margar þeirra segi að margt af því sem fram kemur sé vert skoðunar er fyrst og síðast athugasemd allra, utan að ég held BSRB, að tíminn hafi verið of skammur og málsmeðferðinni sé þar af leiðandi ábótavant.

Virðulegur forseti. Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins telur 26 þingmenn. Við erum hér í minnihlutaafstöðu gagnvart þessu máli en það er ljóst að naumur meiri hluti Alþingis, 37 þingmenn, hyggst rjúfa þá hefð að leita eftir samstöðu og kýs að fara með breytingar á stjórnarskránni í farveg ágreinings til að knýja fram, korteri fyrir kosningar, breytingar á stjórnarskrá Íslands, íslenska lýðveldisins. Ég veit það ekki en ef til vill hefur þess vegna heyrst að ÖSE sjái ástæðu til að koma hingað og fylgjast með kosningum þann 25. apríl. Það þykja að jafnaði ill tíðindi í lýðræðisríkjum að stjórnarskrárbreytingar séu lagðar fram og knúnar í gegn skömmu fyrir kosningar með þeim hætti sem hér á að reyna. (Gripið fram í.)

Virðulegur forseti. Það er vissulega þörf á að breyta stjórnarskránni. Ýmsar greinar hennar eru leifar liðinna tíma sem þarfnast breytinga en þær þarfnast breytinga með ígrunduðum hætti, hæstv. forseti, en ekki fljótaskrift eins og hér hefur verið viðhöfð. Við sjálfstæðismenn höfum lagt til að breyta 79. gr. stjórnarskrárinnar þannig að ekki þurfi að rjúfa þing og fá endurnýjað samþykki Alþingis til að stjórnarskrárbreytingar taki gildi. Tillagan kveður á um að breytingar á stjórnarskrá eigi að leggja fyrir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu og ef sú leið verður farin á yfirstandandi þingi og endurnýjað samþykki Alþingis fæst eftir kosningar verður hægt að setja hugmyndir um breytingar á stjórnarskránni í vandaðan farveg og leggja þær svo í dóm þjóðarinnar án þess að rjúfa þurfi þing.

Hefðin um almenna samstöðu allra flokka er nú rofin. Með því er verið að færa stjórnarskrána inn í hringiðu stjórnmálanna og það er að mínu mati ólíðandi með öllu. Þess má og vænta að næsti meiri hluti, naumur eða ríflegur, geri þær breytingar á stjórnarskránni sem honum hugnast og með því háttalagi sem nú er lagt upp með í breytingum á hinni virðulegu stjórnarskrá geta meiri hlutar á Alþingi gert stjórnarskrána að pólitísku plaggi. (Gripið fram í: Hún er hápólitísk.) Það gengur ekki. Stjórnarskráin á að vera hafin yfir pólitískar deilur á hverjum tíma en ég held að svo sé ekki nú.

Ég hef ítrekað það áður, hæstv. forseti, að ég tel að málsmeðferð sé verulega ábótavant, hraðinn sé of mikill. Það er líka skortur á samráði við hluta þjóðarinnar, fræðasamfélagið í heild sinni, atvinnulífið og ýmsa aðra hagsmunaaðila. Í mínum huga er líka þversögn fólgin í því að gera efnisbreytingar á stjórnarskrá og koma á sama tíma á fót stjórnlagaþingi.

Virðulegur forseti. Sá málflutningur sem heyrst hefur, að Sjálfstæðisflokkurinn eða þingmenn Sjálfstæðisflokksins geti ekki sætt sig við breytingar á stjórnarskránni af því að þeir eða flokkurinn ráði ekki för, er álíka málefnalegur og þegar haft var eftir einum ónefndum þingmanni að það væri mátulegt á Sjálfstæðisflokkinn að vera ekki hafður með í ráðum, hann hefði hvort eð er ráðið svo miklu fram til þessa. Slíkur málflutningur, hæstv. forseti, um breytingar á stjórnarskrá er engum sæmandi. Stjórnarskráin á að vera hafin yfir slíkt.

Á þeim umbrotatímum sem við göngum nú í gegnum dylst engum að gjá hefur myndast á milli þings og þjóðar. Það ríkir ekki gagnkvæmt traust sem er nauðsynlegt og það þarf að endurvinna og skapa Alþingi þann sess í hug þjóðarinnar sem löggjafarsamkoman sem slík á skilinn, óháð þeim einstaklingum sem þar sitja hverju sinni. Í stað þess að byggja brú trúnaðar og trausts er ákveðið að fara í þveröfuga átt. Tillaga er um að setja Alþingi til hliðar, svipta það stjórnarskrárvaldinu og færa það vald til væntanlegs stjórnlagaþings. Engin tilraun hefur verið gerð til samvinnu einstaklinga utan þings, hins venjulega manns, sérfræðinga og/eða þingmanna, til að ræða breytingar, vinnuferla og hugsanlegt samráð, samvinnu, samstöðu um breytingar á stjórnarskránni. Engin tilraun er gerð í þá veru, virðulegur forseti. Síðan tala þingmenn um að lýðræðisbreytinga sé þörf. Ég veit ekki hvort minn skilningur og þeirra á lýðræðisbreytingum fer saman.

En hvernig er þetta í raun hugsað? Eða er þetta kannski ekki hugsað, heldur vanhugsað? Ætla núverandi þingmenn Samfylkingar, Vinstri grænna og Framsóknarflokksins að svipta Alþingi Íslendinga stjórnarskrárvaldinu tímabundið eða til langframa? Eru hugmyndir um að setja á laggirnar stjórnlagaþing til að breyta stjórnarskránni núna og ætla menn að loknum breytingum, þjóðaratkvæðagreiðslu til samþykktar eða synjunar, að færa Alþingi stjórnarskrárvaldið að nýju? Eða verður ætíð kallað til nýtt stjórnlagaþing þegar breytingar á stjórnarskránni eru fyrirhugaðar? Þessum spurningum hefur enginn svarað. Þessum spurningum finnst mér að flutningsmenn frumvarpsins verði að svara. Er verið að svipta Alþingi stjórnarskrárvaldinu til langframa eða tímabundið? Ætla menn að setja á laggirnar stjórnlagaþing í hvert sinn sem breyta þarf stjórnarskránni? Ég óska þess, hæstv. forseti, að þeir flutningsmenn sem eru í salnum eða fulltrúar þeirra flokka svari þessum spurningum mínum.

Ég verð að segja að fyrir mitt leyti get ég séð fyrir mér stjórnlagaþing. Ég get séð fyrir mér mun einfaldara stjórnlagaþing en lagt er upp með hér, þing sem starfar í skemmri tíma, skipað einstaklingum með ólíkan bakgrunn, stjórnlagaþing sem væri Alþingi ráðgefandi í breytingum á stjórnarskrá. En ég get ekki sætt mig við að Alþingi Íslendinga verði svipt stjórnarskrárvaldinu, hvort heldur er í skamman tíma eða til langframa.

Ég velti því líka fyrir mér hvort, ef af stjórnlagaþingi verður, hv. þingmenn ætli þá á meðan það stjórnlagaþing starfar að svipta Alþingi þessu stjórnarskrárvaldi tímabundið. Eða munu tvö þing, Alþingi Íslendinga og sérstakt stjórnlagaþing, starfa á sama tíma þar sem bæði þingin hafa vald til að koma með tillögur að breytingu á stjórnarskrá og óska eftir, ef þetta frumvarp verður að lögum, að þær breytingar verði lagðar í þjóðaratkvæðagreiðslu? Það er æðimargt, hæstv. forseti, sem er óljóst í þessum efnum sem verður að ræða á lengri tíma og er ekki bært að við knýjum í gegn breytingar á stjórnarskránni með svo stuttum fyrirvara.

Virðulegur forseti. Ég hef tjáð hug minn til þessa frumvarps. Í mínum huga skiptir stjórnarskráin meginmáli. Ég er hlynnt breytingum á stjórnarskránni og tel margar breytingar tímabærar. Ég nefndi áðan að það er tímabært að taka mun fleiri greinar en hér eru nefndar og verður að gera, t.d. 5. gr. um kjör forseta Íslands. Henni þarf að breyta. Við þurfum og að velta fyrir okkur því valdi forseta Íslands að geta synjað um undirskrift og hvernig það á að vera o.s.frv. Það eru margar greinar og mörg brýn mál sem við þurfum að skoða ef við ætlum að leggja til gagngerar breytingar á stjórnarskránni.

Ég ítreka enn og aftur að um breytingar á stjórnarskrá verður að vera samstaða. Við getum ekki leyft okkur, hvar sem við stöndum í pólitík, að gera stjórnarskrána að pólitísku deilumáli. Það er algjörlega óásættanlegt.

Virðulegur forseti. Ég rakti að ég er afar ósátt eins og flestir umsagnaraðilar við þá málsmeðferð sem hér hefur verið beitt, við þann hraða sem er á málinu. Það er staðreynd sem við stöndum frammi fyrir að rofin er hefð um samstöðu og skortur er á samráði við þjóðina. Fræðasamfélagið, atvinnulífið og ýmsir aðrir hagsmunaaðilar eru hluti þjóðarinnar. Það er ekki hægt að tala um þjóðina eins og hún sé eitthvert mengi sem hentar okkur að nefna endrum og sinnum. Þessir aðilar, fræðasamfélagið, atvinnulífið og ýmis önnur hagsmunasamtök, orkufyrirtækin í landinu, allir þeir sem þar starfa, eru hluti þjóðarinnar. Þeir hafa lýst yfir gagnrýni sinni á málsmeðferð, telja hraðann of mikinn, og ég spyr, hæstv. forseti: Er ekki rétt að staldra við?

Virðulegur forseti. Ég óska eftir því að eftir 2. umr. í þessu mikilvæga máli verði því vísað til 3. umr. og að við þingmenn, hvar í flokki sem við stöndum, berum gæfu til að ná samstöðu um jafnmikilvægt mál og breytingar á stjórnarskránni hljóta að vera í hugum okkar.

Ég vænti þess að náist ekki samstaða allra stjórnmálaflokka á þinginu um breytingar sem sátt getur verið um verði málinu vísað frá.