136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

röð mála á dagskrá o.fl.

[11:10]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Það er ánægjulegt í sjálfu sér að sjá það eftir hálfs mánaðar fjarveru að Sjálfstæðisflokkurinn situr við sinn keip og er enn í sama málþófinu um stjórnarskrárfrumvarpið og hann var þegar ég varð að yfirgefa þennan vinnustað fyrir 14 dögum. Og það er enn sami fulltrúinn, hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sem stendur upp þó að Árni Johnsen hafi að vísu sótt mjög hart að forustusætinu í Sjálfstæðisflokknum í þessum efnum. (Gripið fram í.)

Ástæðan er líka enn sú sama. Það er fyrst og fremst til að koma í veg fyrir að ákvæði um þjóðareign á auðlindum á Íslandi og einkum auðlindum sjávar sé samþykkt á þinginu og komist í stjórnarskrá. Það er varðstaðan um sérhagsmunina sem Sjálfstæðisflokknum er efst í huga og fremst í mun á þessum tímum. (ÞKG: ... Helguvík.) Um Helguvík er það því miður þannig að það skiptir engu máli hvort það frumvarp sem hér liggur fyrir er samþykkt eða ekki. Helguvík ræðst annars staðar en í þingsalnum. (Gripið fram í.)

(Forseti (GuðbH): Ég vil biðja hv. þingmenn að gefa ræðumönnum tækifæri til að flytja mál sitt.)