136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[21:57]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér þykir gott að heyra að hv. þingmaður skuli ekki setja sig upp á móti stjórnlagaþingi. Ég hef skilið afstöðu margra þingmanna Sjálfstæðisflokksins þannig að þeir geri það, að Alþingi afsali sér valdi sínu til stjórnlagaþings. Ég hefði hins vegar talið að eftir kerfishrun væri brýn nauðsyn á því að við endurskoðuðum stjórnkerfi okkar og grundvallarlög vegna kerfishrunsins sem varð í haust.

Ég spyr hv. þingmann hvort hann geti ekki verið sammála mér um það og hvort hér hvíli ekki margar brýnar skyldur á þinginu sem lúta einmitt að efnahags- og atvinnumálum þannig að við núverandi aðstæður sé ákaflega heppilegt að fá sérstakt þing til þess að fjalla um grundvallarlögin á meðan við höldum áfram að vinna með efnahags- og atvinnumálin, félagsmálin og velferðarkerfið, niðurskurðinn í ríkisrekstrinum og öll þau gríðarlegu verkefni sem fram undan eru. Hvort það sé ekki bara ósköp eðlilegt að þjóðin sjálf fái að skera úr um niðurstöðu þess stjórnlagaþings. Hvort við eigum nokkuð að spilla þeirri vinnu með því að breyta þeim niðurstöðum í þá hefðbundnu flokkadrætti sem mér virðast verða hér í hvert sinn sem stjórnarskrármál koma til umfjöllunar.

Ég minni á að það er nú ekki svo að Sjálfstæðisflokkurinn hafi ekki flutt mál í andstöðu við stóra flokka í þinginu er varða breytingu á stjórnarskrá. Það var nú bara á fyrsta kjörtímabili mínu sem Geir Hilmar Haarde, sem ég hygg að þá hafi verið leiðtogi Sjálfstæðisflokksins, flutti hér breytingartillögu við stjórnarskrána með þáverandi formanni Framsóknarflokksins í andstöðu við stærsta stjórnarandstöðuflokkinn, alveg klárlega. Mér virðist því að við höfum allt of mörg dæmi um að (Forseti hringir.) flokkadrættir spilli umfjöllun um stjórnarskrána og að við eigum bara að afsala okkur þessu valdi.