136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[23:50]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa ágætu ræðu hæstv. fjármálaráðherra. Ég tel mikinn mun á því að hér getum við átt orðastað heldur en það sem oft hefur verið hér í þingsalnum. En ég vil þó taka eitt fram. Það sem hefur valdið okkur sjálfstæðismönnum áhyggjum er að hér liggur fyrir fjöldinn allur af athugasemdum, m.a. frá lögmannafélaginu og öðrum aðilum sem vel þekkja til þessara mála. Þær athugasemdir eru meira og minna allar á einn veg, að hér hefði þurft að vanda betur til verka og gefa sér betri tíma. Og af því að hæstv. fjármálaráðherra nefndi einmitt hugtakið þjóðareign þá eru uppi efasemdir virtra lögspekinga um réttarfarsleg áhrif þessa hugtaks inn í stjórnarskrána. Væri nú ekki ráð að við gæfum okkur tíma til þess að eyða slíkum efasemdum og slíkri óvissu sem kynni að koma upp vegna þess að nú sjáum við þetta fyrir? Við höfum tíma til að vinna þetta vel.

Ég bendi líka á, virðulegi forseti, að þeir eru margir lögspekingarnir sem eru einfaldlega þeirrar skoðunar að hugtakið þjóðareign sé ónothæft með þeim hætti sem hér er reynt að gera vegna þess að það skorti einfaldlega fulla (Forseti hringir.) merkingu, það sé ekki hægt að ná utan um þetta hugtak (Forseti hringir.) þannig að það sé boðlegt inn í stjórnarskrána. Þetta eru meðal (Forseti hringir.) fjölmargra atriða sem við sjálfstæðismenn höfum verið að gera athugasemdir við í umræðunni.