136. löggjafarþing — 128. fundur,  7. apr. 2009.

úrskurður forseta um dagskrártillögu.

[13:38]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég held að mikilvægt sé að gera sér grein fyrir því að það óefni sem þingstörfin eru komin í stafar af þrásækni sjálfstæðismanna hér í stólinn til þess að tefja afgreiðslu máls sem meiri hluti þingsins er sammála um.

Ég vil svo lýsa yfir ánægju með þessa túlkun forseta. Það er alveg augljóst, eins og ég sagði fyrr í dag, að þessa grein þingskapalaga hlýtur að verða að túlka með einhverjum þeim hætti að þingfundir geti starfað án þess að hér sé borið upp legíó dagskrártillagna þegar ósvífinn minni hluti vill tefja störf þingsins með þeim hætti. Ég held að þessi úrskurður sé málefnalegur og gefi (Gripið fram í.) öllum sinn rétt.

Hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir spyr hvort þetta hafi verið við lýði þegar rætt var um Ríkisútvarpið forðum daga og svarið er nei, það var ekki gert þá. Þá fóru menn bara að þingsköpum, (Gripið fram í.) neyttu þess réttar sem í þingsköpum var en reyndu (Forseti hringir.) ekki að fara á svig við þingsköpin og út (Forseti hringir.) fyrir lögin eins og Sjálfstæðisflokkurinn gerir nú undir stjórn (Forseti hringir.) hv. þm. Björns Bjarnasonar og (Forseti hringir.) Árna Johnsens.