136. löggjafarþing — 128. fundur,  7. apr. 2009.

dagskrártillaga.

[15:09]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Hér hafa sjálfstæðismenn stundað grímulaust málþóf og haldið þinginu í gíslingu. Þeir hafa fundið upp á mörgu nýju, t.d. því að fara í andsvör við sjálfa sig og þeir hafa líka fundið upp á því að syngja úr ræðustóli. (Gripið fram í: Ekki …) Og núna er það nýjasta nýja að flytja tillögur um að breyta dagskránni. Þetta er alveg nýtt. (Gripið fram í.) Þetta kom fram í gær í fyrsta sinn (Gripið fram í.) og þá greiddum við atkvæði um það og sú tillaga var felld. (Gripið fram í: Framsóknarmenn …)

Ég tel að við höfum gert mistök í gær með því að taka þessa tillögu til afgreiðslu. Núna ætla sjálfstæðismenn að beita þessu aftur og aftur, koma hér sí og æ með dagskrártillögur (Gripið fram í.) og láta fella og fella. Við gerðum mistök í gær með því að bjóða upp á þetta ferli. Við eigum að halda okkur við þá dagskrá (Forseti hringir.) sem forseti hefur sett upp í samráði við þingflokksformenn. Að sjálfsögðu á að gera það. (Forseti hringir.) Ég segi nei.