136. löggjafarþing — 131. fundur,  14. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[23:47]
Horfa

Sturla Böðvarsson (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég vona að það að ég tók til máls um frumvarpið hafi ekki orðið til þess að það mál sem hér var til umræðu og á dagskrá var tekið út af dagskrá fundarins, hv. þm. Lúðvík Bergvinsson fór í andsvar við mig vegna þess máls. Ég vona að það hafi ekki leitt til þess að forseta Alþingis hafi brugðið svo að hann hafi ákveðið að fresta umræðunni, ég á ekki von á því. En ef hins vegar á að fara að ræða stjórnarskipunarlögin sem eru til meðferðar finnst mér algerlega nauðsynlegt að flutningsmenn frumvarpsins séu viðstaddir, ekki síst flutningsmaður úr Framsóknarflokki. Ég hlustaði á það í fréttum að Framsóknarflokkurinn hefur fallið frá tillögum sínum sem eru í þessu frumvarpi. (Forseti hringir.) Það vakti mikla athygli.