136. löggjafarþing — 132. fundur,  15. apr. 2009.

tekjuskattur.

410. mál
[14:02]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum enn og aftur við 3. umr. mál um hækkun á vaxtabótum og burt séð frá því að hv. nefnd sem um þetta mál fjallaði sneri málinu eiginlega við sem ég lét bóka í hv. nefnd að væri mjög óeðlilegt vegna þess að í raun var lagt fram nýtt frumvarp að miklu leyti. Það frumvarp hefur ekki fengið þrjár umræður á Alþingi eins og venja er til og hefur ekki verið sent til umsagnar fyrir utan það að ekki hafa fengist nauðsynlegir útreikningar á því hvernig þetta kemur út fyrir einstakar fjölskyldur eða hvernig þetta kemur út yfirleitt. Horfið var sem sagt frá því að miða við að lækka prósentu af vöxtum sem koma til frádráttar, eða hækka þá tölu, þá var ákveðið að miða við prósentu af skuldum sem er hámarkið og það var hækkað úr 5% í 7%. Það er því allt annar hópur sem fær núna vaxtabætur heldur en í upprunalegu frumvarpi sem lagt var fram og eiginlega er ekki hægt að sjá neitt sambærilegt í þessum tveimur frumvörpum sem við ræðum nú. Ég gerði athugasemd við þetta í hv. nefnd þegar það var til umræðu. Mér finnst þetta slæm vinnubrögð og er kannski til marks um hve mikill hraði er á mörgum málum sem við erum að afgreiða, því þá er töluverð hætta á því að mistök verði gerð í vinnslu mála og er það mjög miður ef hv. Alþingi flýtir sér einum of að semja frumvörp.

Ég ræddi líka annan þátt sem ég er ekki enn þá orðinn sáttur við, þ.e. að meiningin er að nota til þessa verkefnis eða þessara breytinga 2.000 milljónir eða 2 milljarða af afskaplega fáséðum milljörðum sem ríkissjóður á. Hann á þá reyndar ekki því að mikill halli er á ríkissjóði þetta árið og verður enn meiri á næsta ári. Hér er því verið að auka hallann. Mér finnst að þegar menn eru í slíkum aðgerðum þurfi að vanda sig alveg sérstaklega við hvert þessir fjármunir fara, þessar 2.000 milljónir sem menn hafa ætlað sér að setja í þetta verkefni. Mér finnst hæstv. ríkisstjórn sem flytur málið engan veginn takast að koma peningunum þangað sem þörfin er mest fyrir þá, heldur er þetta í rauninni holt og bolt yfir alla sem verið er að setja þessa peninga.

Nú er það svo, frú forseti, að hluti þjóðarinnar er í verulega miklum vanda. 9% af þjóðinni hafa misst vinnuna og það er eitthvað sem við viljum ekki og eigum ekki að sætta okkur við. Atvinnuleysi hefur aukist undanfarið eftir að ný ríkisstjórn kom til skjalanna en var reyndar mikið áður. Þessi hópur manna er í mjög miklum vanda. Fólk sem var með kannski 500–700 þús. kr. á mánuði, jafnvel milljón í bönkunum, fær allt í einu atvinnuleysisbætur upp á 230 þús. kr., ef ég man rétt, tekjutengdar í þrjá mánuði og síðan ótekjutengdar atvinnuleysisbætur eftir það sem eru um 160–170 þús. kr. fyrir skatt. Þetta er náttúrlega mjög mikið fall í tekjum hjá þeim einstaklingum sem lenda í þessu, svo maður tali ekki um ef bæði hjónin eru atvinnulaus. Þarna er vandinn sem við glímum við því þetta fólk hefur ekki burði til að borga af lánum, hefur ekki burði til að framfleyta fjölskyldunni eða standa undir þeim útgjöldum sem fjölskyldan var búin að gera skuldbindingar um með bílakaupum, íbúðarkaupum og öðru slíku. Þessi hópur er virkilega í vanda.

En svo er ákveðinn hópur þar fyrir utan sem hefur lækkað í tekjum og misst yfirvinnu og hreinlega lækkað í tekjum og síðan er enn einn hópurinn sem er með lán, bílalán og íbúðalán í erlendri mynt sem hafa hækkað ofboðslega mikið, ekki síst núna síðustu vikuna. Gengi erlendra mynta hefur hækkað óskaplega mikið, um 16% frá því að ný ríkisstjórn tók við. Þar er eitthvað að fara úrskeiðis sem við höfum ekki fengið almennilegar skýringar á frá hæstv. ráðherra. Þarna er vandinn. Vandinn er kannski 9% atvinnuleysi og verið er að giska á um 15% til viðbótar, þ.e. þeir sem eru með erlendu lánin eða hafa orðið fyrir tekjumissi eða tekjulækkun, það séu því um 25% sem eru í verulega miklum og alvarlegum vanda.

Það frumvarp sem við ræðum notar 2.000 millj. kr. til að dreifa á allt fólk burt séð frá þessum vanda og það er það sem ég talaði um að menn væru að gusa út peningum til allra í stað þess að einbeita sér að þeim sem eru virkilega í vanda. Mér finnst það vera mjög alvarlegt í þessu frumvarpi að menn skuli ekki horfa á þann hóp. Ég hefði t.d., frú forseti, gjarnan viljað sjá hvað hefði kostað mikið að hækka mörkin í tekjutengdu atvinnuleysisbótunum. Það hefði komið þeim hópi miklu betur að fá hærri tekjutengdar bætur, þ.e. nálgast þau laun sem fólk hafði fyrir, þannig að fallið yrði ekki eins mikið í tekjunum, eða þá lengja tímann úr 3 mánuðum í kannski 4–5 mánuði. Ég hefði viljað vita hvað slíkt hefði kostað og hvort ekki hefði mátt setja þessar 2.000 millj. kr. í þann farveg að hækka atvinnuleysisbætur eða lengja tímann þannig að verið sé að ráðast að rótum vandans þar sem hann er raunverulega til staðar. Ég fer ekkert ofan af því að ég held að mesti vandinn sé hjá þeim sem eru atvinnulausir. Minni vandi er hjá þeim sem hafa lækkað í tekjum og vissulega er mikill vandi hjá þeim sem eru með erlendu lánin en hann er annars eðlis og búið er að benda á leiðir í því að lengja í lánum og fresta greiðslum sem leysir þann vanda þeirra sem eru með gengistryggð lán. Vandi hinna sem eru atvinnulausir er mestur. Ég hefði viljað sjá þessar 2.000 millj. kr., frú forseti, í þann endann en ekki var fallist á þá lausn. Þetta er í sjálfu sér svipað og ríkisstjórnin er að gera í öðrum málum líka, eins og t.d. með séreignarsparnaðinn, og alveg ótrúleg niðurstaða fékkst í því máli. (Gripið fram í.) Nei, ég er að ræða, frú forseti, lausnir til að leysa vanda heimilanna og ég hefði viljað sjá að menn skoði hvar vandinn er mestur og það er hjá þeim sem eru atvinnulausir en ekki hjá almenningi almennt. Ég vara menn við að líta svo á að öll þjóðin sé í vanda. Það er kannski einn fjórði hluti þjóðarinnar sem er í miklum eða verulega miklum vanda en þessar aðgerðir, bæði séreignarsparnaðurinn og vaxtabæturnar, eru ætlaðar almennt öllum. Ég vara við því. Það er miklu skynsamlegra að nota þessa fjármuni markvisst til að bæta stöðu þeirra verst stöddu.

Ég er t.d. með lausn hvað varðar séreignarsparnaðinn og kom með breytingartillögu um að þeir sem væru í vanda gætu fengið séreignarsparnað sinn að fullu greiddan út með skuldaskilum þannig að lífeyrissjóðurinn gæfi út skuldabréf sem kröfuhafinn, banki yfirleitt, tæki gilt og var náttúrlega miklu betra en hafa einhvern einstakling í vanskilum sem skuldara. Og líka að skatturinn taki slíkt skuldabréf gilt sem er nákvæmlega sama sagan því skatturinn fær þá peningana nákvæmlega eins og hann hefði fengið þá ella. Þetta skuldabréf væri með sömu gjalddögum og séreignarsparnaðurinn sjálfur, háð aldri mannsins o.s.frv. og þá til mjög langs tíma en með sömu ávöxtun. Þetta hefði verið lausn sem hefði nýst þeim sem eru virkilega í vanda, þeim sem skulda og eru að missa húsin sín og eiga kannski 5 eða 10 milljónir í séreignarsparnaði. Það hefði verið eitthvað sem munaði um. En þessi milljón sem menn eru að fá sem gefur um 60–70 þús. kr. á mánuði í 9 eða 10 mánuði er engin bót. Mér finnst hæstv. ríkisstjórn vera mjög mislagðar hendur í því að bæta stöðu þeirra sem raunverulega þurfa á því að halda.

Það mál sem við ræðum er einmitt dæmi um það að verið er að setja peninga til allra sem njóta vaxtabóta hvort sem þeir eru atvinnulausir eða halda fullri vinnu og hafa jafnvel fengið launahækkanir undanfarið. Ekki má gleyma því að þó að sumir hafi lækkað í launum hafa aðrir fengið launahækkanir eins og kjarasamningar gerðu ráð fyrir og eru þar af leiðandi alls ekki í sérstaklega slæmri stöðu. Auðvitað hittir verðbólgan alla fyrir og hún var umtalsvert mikil og hefur verið undanfarin ár. Reyndar er verðbólgan horfin núna þannig að verðtryggð lán lækka um næstu mánaðamót, sem er mjög gleðilegt og ánægjulegt, og þá segir mér svo hugur, frú forseti, að menn munu hætta að tala um að afnema verðtrygginguna þegar hún er farin að henta fólki. Það vill nú oft verða þannig.

Ég gerði athugasemdir við frumvarpið af þessum tveim ástæðum. Ég batt ákveðnar vonir við að menn mundu sjá ljósið og draga það til baka og setja heldur 2 milljarða af afskaplega dýrmætu fé, sem ríkissjóður á ekki, markvisst þangað sem þörf er á og það er að mínu mati í atvinnuleysisbótum og hvergi annars staðar. Langsamlega besta aðferðin til að bæta stöðu heimilanna, þeirra sem verst eru sett, er að setja peninga í atvinnuleysisbætur. Ég vona að menn sjái ljósið og láti af þessum frumvörpum því þetta er annað frumvarpið sem við fáum frá hæstv. ríkisstjórn sem dreifir peningum almennt til allra, of lítið og of magurt og kemur ekki þeim hópum til góða sem virkilega þurfa á því að halda.

Ég hef heyrt af því, talandi um þessa milljón í séreignarsparnaði, að fólk er að kaupa fyrir hana ferðir til útlanda, og var það þó örugglega ekki markmiðið með þeim aðgerðum. Mér skilst að um 20 þúsund manns hafi ákveðið að taka út séreignarsparnað sinn. Ég vona að flestir þeirra noti það fé til að greiða niður skuldir og þá til að breyta þeim eða setja féð í annað innlánsform, borga af því skatta og eiga það svo inni á sparisjóðsbók. En ég hef heyrt dæmi um að menn séu að nota þetta í ferðalög og neyslu og það er einmitt það sem bent var á í því sambandi að 70 þús. kr. á mánuði er þægileg utanlandsferð. Hættan er sú að þegar menn fá peninga í svona mörgum litlum skömmtum þá fari þeir einmitt í neyslu.

Nú má segja, frú forseti, að það sé ágætt að örva neysluna því sparnaðurinn sé orðinn fullmikill hér á landi og það má til sanns vegar færa. Má t.d. nefna að ferðaskrifstofur, bílasalar og slíkir hafi orðið fyrir miklum búsifjum þegar neyslan dregst svona harkalega saman eins og reyndin hefur verið. En ef menn ætla sér að setja atvinnulífið í gang með þeim hætti þá eiga þeir líka að kalla barnið það sem það heitir og vera ekki að tala um að menn ætli að greiða út séreignarsparnaðinn til að bæta stöðu þeirra heimila sem verst eru sett því það gerir það ekki. Það frumvarp sem við ræðum, burt séð frá því sem gerðist í nefndinni sem breytti frumvarpinu algerlega og nýtt frumvarp kom, sem mér finnst varasamt, þá er ekki spurning að þeim 2.000 millj. kr. sem ætlaðar eru í þetta verkefni er illa varið ef markmiðið er að bæta raunverulega stöðu þeirra heimila sem verst eru sett.