136. löggjafarþing — 132. fundur,  15. apr. 2009.

listamannalaun.

406. mál
[18:25]
Horfa

Sturla Böðvarsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er athyglisverður vinkill hjá hv. þm. Þuríði Backman. Það kann að vera skýringin á þessu að þeir listamenn sem gert er ráð fyrir að bætist við séu listamenn sem kunni að hafa notið stuðnings fyrirtækja, og eins og hún segir auðmanna. Ég vil ekki leggja neitt mat á það.

Ég tel að það kerfi sem við höfum sett upp og sjálfstæðismenn hafa borið ábyrgð á og settu á laggirnar með sérstakri löggjöf árið 1991, (MÁ: 1996.) 1991, lögin eru frá 1991, hv. þm. Mörður Árnason. Við erum að tala hér um lög sem við erum að breyta sem eru að grunni frá 1991. Svo það sé á hreinu.

Ábyrg leið, segir hv. þm. Þuríður Backman. Ég efast ekki um að það sé einlægur ásetningur hennar. Ég bendi einmitt á að þetta er ekki ábyrg aðferð, þ.e. að til þess að hægt sé að fjölga listamönnum á launum verði tekin lán af hálfu ríkissjóðs. Ég tel að það væri miklu ábyrgari leið að hagræða í ríkisrekstrinum. Ég get alveg verið sammála því að það sé æskilegt að fjölga listamönnum sem geti sinnt list sinni og því er ég mjög ánægður með að inn komi hönnuðir, sviðslistafólk og fleiri sem bætast í hópinn. Það er af hinu góða og ég hef mælt alveg sérstaklega með því.

En gagnrýni mín byggist á því að hér er sýndarmennska á ferðinni rétt fyrir kosningar. Það er verið að blekkja fólk, blekkja listamenn með því að lofa upp í ermina á sér með fjölgun þeirra sem (Forseti hringir.) geta fengið laun með (Forseti hringir.) lántöku. Í því felst gagnrýni mín.