136. löggjafarþing — 132. fundur,  15. apr. 2009.

listamannalaun.

406. mál
[19:07]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Það er út af fyrir sig fróðlegt að hv. þm. Dögg Pálsdóttir skuli átelja frumvarpsflytjanda og meiri hluta menntamálanefndar fyrir það að taka þetta fé ekki frá hinum áttræðu listamönnum. Ástæða er til að spyrja hv. þingmann hvort hún viti um hversu mikið fé er að ræða á hvern mann og hvernig það muni þá nýtast hinum yngri. Þetta er nokkuð kaldlynt viðhorf en auðvitað er ákveðin hagsýni í því fólgin.

Hins vegar má benda hv. þingmanni á að flokksbræður hennar í minni hluta menntamálanefndar standa á móti öllum breytingum á þeim lögum sem nú eru í gildi. Í áliti þeirra segir að 2. minni hluti menntamálanefndar leggi til að ekki verði hróflað við núgildandi lögum um listamannalaun og heldur ekki þeim atriðum sem hv. þingmaður spurði um — og var út af fyrir sig sumt áhugavert sem hún vakti máls á þar. Hv. þingmaður þarf hins vegar að svara því við þessa umræðu hver afstaða hennar er til frumvarpsins. Er hv. þingmaður sammála hv. þingmönnum Ragnheiði Ríkharðsdóttur og Einari K. Guðfinnssyni um það að leggjast gegn fjölgun listamannalauna og líka þeim öðrum atriðum og breytingum sem í frumvarpinu felast?

Í öðru lagi spyr ég, herra forseti, hv. þingmann, eins og ég hef spurt aðra þá sjálfstæðismenn sem ég hef komist í tæri við í þessari umræðu: Er þingflokkur Sjálfstæðisflokksins einhuga í málinu? Hefur málið verið rætt í þingflokki Sjálfstæðisflokksins? Liggur fyrir að allir þingmenn Sjálfstæðisflokksins ætli sér að leggjast gegn frumvarpinu? Er það þannig að það þurfi (Gripið fram í.) að þráspyrja um það því að enn hafa ekki svör borist við þessari (Gripið fram í.) spurningu? Sturla Böðvarsson vék sér fimlega undan því áðan að koma fram með þau.