136. löggjafarþing — 132. fundur,  15. apr. 2009.

listamannalaun.

406. mál
[21:02]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta menntmn. (Einar Már Sigurðarson) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þegar hv. þingmenn eru í ákveðnum leiðöngrum verða þeir auðvitað að fá að fara sína leið. Ég reyndi að tala afar skýrt áðan og líka í 2. umr. um það hvernig þessu máli væri háttað. Það vill svo til að hæstv. menntamálaráðherra gerði það líka í 1. umr. þannig að hér er bara um endurtekningar að ræða. Það er réttur hv. þingmanna að halda sínu máli fram með þeim hætti sem þeir velja. Ef hv. þingmenn velja þá leið að hlusta ekki á neitt sem sagt er og keyra síðan áfram sína leið burt séð frá því sem sagt hefur verið þá er ekkert við því að gera og hv. þingmenn verða bara að eiga það við sig hvernig þeir haga málflutningi sínum. Hver og einn hefur fullan rétt til þess.

Virðulegur forseti. Til að einfalda hlutina vil ég leyfa mér að vitna í orð hæstv. menntamálaráðherra við 1. umr. en hæstv. ráðherra sagði m.a.:

„Kostnaðaraukinn vegna þessa á árinu 2010 yrði 38,7 milljónir, 34,7 á árinu 2011 og 33,3 á árinu 2012 miðað við verðlag í byrjun árs 2009, alls 106,7 millj. kr. Á móti þessum hækkunum koma til frádráttar fjárveitingar sem þegar hafa verið veittar til málaflokksins en ekki nýttar, samtals 89 millj. kr. …“

Það þýðir, virðulegur forseti, ef þetta er reiknað að þarna er mismunur upp á 17 millj. kr. sem kemur að sjálfsögðu til með að þurfa að vera í fjárlögum fyrir árið 2012 ef það verður niðurstaðan að þessi upphæð verður veitt þá, en auðvitað er það sjálfstæð ákvörðun við gerð fjárlaga hvers árs hvaða upphæð verður þar inni. Þetta frumvarp er með sama hætti og mjög mörg önnur lagafrumvörp að fjárlögin skapa rammann. Þannig er málið.

Virðulegur forseti. Ef hv. þingmenn hafa ekki áttað sig á því að þetta snýst um 17 millj. kr. árið 2012 skilur maður auðvitað miklu betur málflutning hv. þingmanna.