137. löggjafarþing — 4. fundur,  20. maí 2009.

áform ríkisstjórnarinnar um fyrningu aflaheimilda.

[14:48]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það má kannski segja að þessi umræða hafi ekki leitt mjög margt nýtt fram nema þó það að nú liggur fyrir að það er bara einn stjórnmálaflokkur á Alþingi sem er áhugasamur um fyrningarleiðina. Það er gamla góða Samfylkingin sem er föst við þetta heygarðshorn sitt og kemst ekki út úr því, búin að tala sig inn í vitleysuna, kemst ekki út úr henni og heldur áfram að tala með þeim hætti sem hún gerði hér í þessari umræðu. Hún hefur algjörlega einangrað sig í sjávarútvegsumræðunni sem er mjög athyglisvert.

Umræðan hefur þó í sjálfu sér leitt það fram að aðrir stjórnmálaflokkar annaðhvort gjalda mjög varhuga við fyrningarleiðinni eða eru um hana gjörsamlega áhugalausir. Samfylkingin er með öðrum orðum einangruð í umræðunni og hefur ekki lagt á borð með sér neitt annað en gömlu frasana sem hafa alltaf fylgt umræðunni.

Ég kallaði eftir svörum við tilteknum spurningum, svo sem þeirri hvort ekki lægi fyrir ítarleg athugun á afleiðingum fyrningarleiðarinnar fyrir einstakar sjávarbyggðir, fyrir sjávarútveginn, fyrir einyrkjana o.s.frv. Þessu var svarað með þögninni. Hið eina sem var sagt var að það yrði gert, það yrði farið í einhvers konar athugun á þessu áður en málunum yrði hrundið í framkvæmd. Það liggur þá fyrir að þessi þáttur stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar er algjörlega faglega óundirbúinn.

Það er mikill ábyrgðarhluti þegar máli af þessu tagi er kastað inn í umræðuna í gegnum stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem veldur síðan óvissu og er farið að valda beinum skaða í sjávarútveginum og tengdum atvinnugreinum. Það fer ekki á milli mála að þetta er þegar farið að hafa alvarlegar afleiðingar og það sjáum við og heyrum víða um landið.

Hér hefur áður verið talað um það að þeir sem hafa varað við fyrningarleiðinni væru talsmenn sérhagsmuna. Þessu vísa ég á bug. Eða eru það sérhagsmunir þegar sveitarfélögin álykta vítt og breitt um landið gegn fyrningarleiðinni? Eru þessi sveitarfélög að verja sérhagsmuni? Eru þau ekki að verja almannahagsmuni? Eða hvað á t.d. að segja um vel rökstudda ályktun sem kemur frá Fjarðabyggð? Í henni segir, með leyfi forseta:

„Sátt verður ekki náð með umbyltingu eins og þeirri sem boðuð er með fyrningarleið. Áform stjórnvalda um fyrningarleið valda óvissu um starfsgrundvöll sjávarútvegsins til framtíðar og leggst bæjarráð Fjarðabyggðar því eindregið gegn þeim.“

Eru hér einhverjir sérhagsmunaaðilar að tala? Eru hér ekki fulltrúar fólksins að tala, fulltrúar sem hafa farið ofan í þessi mál og skoðað þau út frá sjónarhóli sveitarfélags sem byggir mjög mikið á sjávarútvegi og komast að þessari niðurstöðu? (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Vonbrigðin við þessa umræðu eru þau að hæstv. sjávarútvegsráðherra svaraði ekki þeim spurningum sem ég beindi til hans. Ég get út af fyrir sig gefið honum háa einkunn fyrir upplestur úr stjórnarsáttmálanum, fyrstu ágætiseinkunn bæði fyrir lestur og framsögn. (Gripið fram í.) Það var út af fyrir sig þó ekki það sem ég var að fiska eftir, lestrarkunnátta hæstv. ráðherra. Ég vissi að hún væri góð. Ég óskaði hins vegar eftir því að hæstv. ráðherra svaraði grundvallarspurningum sem skiptir okkur miklu máli að við fáum svör við. Ég óskaði svara við því hvaða áhrif þetta hefur, hvort þetta hafi verið eðlilega undirbúið og svo við grundvallarspurningunni um það sem hvorugur þeirra sem talaði fyrir fyrningarleiðinni svaraði hér, virðulegi forseti. Spurningin var: Hver eru áhrifin fyrir sjávarútveginn? Er líklegt að við munum verða með öflugri sjávarútveg eða veikari?

Þegar hótað er innköllun og fyrningu aflaheimilda, eins og hæstv. ríkisstjórn hefur gert, hefur það þegar neikvæð áhrif, það hefur haft það og mun hafa frekari neikvæð áhrif. Þegar á annan bóginn er vegið að tekjugrundvelli fyrirtækjanna og á hinn bóginn blasir við að fyrirtækin verða að standa undir föstum og breytilegum kostnaði sem ekki breytist hefur það auðvitað þau áhrif að fyrirtækin veikjast.

Það er alveg ljóst, eins og ég færði rök fyrir áðan, að sjávarútvegurinn þarf við þessar aðstæður fyrst og fremst á vissu að halda og að geta skipulagt sig fram í tímann. Sjávarútvegurinn er ekkert síður en margar aðrar atvinnugreinar atvinnugrein sem kallar á langtímahugsun vegna mikillar fjárfestingar og vegna þess að menn eru að berjast um á erfiðum markaði erlendis.

Ég verð líka að vekja athygli á því að hv. þingmenn sem töluðu fyrir fyrningarleiðinni töluðu mikið um byggðirnar í þessum efnum. Eru þeir þá að tala um að það eigi að dreifa þessum fyrndu aflaheimildum með einhverjum þeim pólitíska hætti sem í raun og veru var gefið til kynna? Það er ekkert slíkt sem maður fær út úr málflutningnum en ýmislegt er gefið til kynna til þess að tala upp í eyrun á fólki. Það er alveg ljóst af þessari umræðu að hugmyndir ríkisstjórnarinnar eru algjörlega óútfærðar. (Forseti hringir.) Það liggur engin samstaða fyrir um það hvernig staðið verður að þessu og Samfylkingin er algjörlega einangruð í þessu máli.