137. löggjafarþing — 4. fundur,  20. maí 2009.

hlutafélög og einkahlutafélög (eignarhald, kynjahlutföll og starfandi stjórnarformenn).

14. mál
[15:21]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög (eignarhald, kynjahlutföll og starfandi stjórnarformenn). Hér hefur verið ágætlega athyglisverð umræða í andsvörum einkum hvað varðar jafnréttishliðina en ég verð að segja í ljósi orða hv. þm. Magnúsar Orra Schram að mér þykir ekkert sérstaklega mikið jafnrétti fólgið í því að í átta nefndum Alþingis séu konur í meiri hluta. Ef við horfum til jafnréttis hlýtur sjónarmiðið að vera jafnt hlutfall kynja í nefndum en ekki að ójafnrétti sé komið á hina hliðina. Ég leyfi mér að halda því fram að ef hv. forsætisnefnd þingsins hefði verið skipuð sjö karlmönnum hefði heyrst hljóð úr horni en ég hef ekki heyrt neinar athugasemdir gerðar við það að hv. forsætisnefnd sé skipuð sjö konum. Ég leyfi mér að vekja athygli á þessu hér vegna þess að jafnréttishugtakið snýst einmitt um jafnan rétt en ekki aukinn rétt á hvorn veginn sem er. Þetta var nú útúrdúr.

Það frumvarp sem hér er lagt fram er endurflutt frá fyrra þingi en það stöðvaðist eftir 2. umr. og náði ekki fram að ganga þá. Talsverð vinna hafði farið fram í nefndinni og fyrir lágu bæði meirihluta- og minnihlutaálit um málið. Ég átti sjálf ekki sæti í hv. viðskiptanefnd þá og kem því ný að málinu núna og mun að sjálfsögðu taka þátt í þeirri vinnu sem fram fer í nefndinni en ég vildi aðeins koma og greina stuttlega frá fyrstu viðbrögðum mínum við frumvarpinu.

Ég tel almennt séð að þetta frumvarp sé frekar meinlaust og að flestu leyti til bóta þannig að það ætti að geta náðst um það góð samstaða í nefndinni. Þó verð ég að taka undir í upphafi með hv. þm. Eygló Harðardóttur að ég hefði frekar viljað sjá hæstv. viðskiptaráðherra leggja fram í þinginu mál sem hefðu eitthvað með endurreisn íslensks samfélags að gera. Þó svo að bættir starfshættir í hlutafélögum séu ágætir til síns brúks hefði ég viljað sjá frumvarp í þinginu um endurreisn Íslands, hag heimilanna og fyrirtækjanna í landinu sem þolir ekki neina bið. Ég hvet hæstv. viðskiptaráðherra til að setja á sig skautana og koma fram með þau mál sem varða þjóðarhag. Með fullri virðingu fyrir þessu ágæta máli held ég að það hefði að ósekju getað beðið haustsins.

Þetta mál snýr að þremur atriðum. Í fyrsta lagi að breytingum sem lúta að því að auka gagnsæi í starfsemi hlutafélaga. Í öðru lagi að upplýsingaskyldu um kynjahlutföll eins og hér hefur verið rætt, bæði varðandi stjórn og starfslið fyrirtækja. Og í þriðja lagi að stöðu hinna svokölluðu starfandi stjórnarformanna.

Í starfi nefndarinnar á síðasta þingi kom fram einhugur má segja, það var frekar áherslumunur en efnislegur ágreiningur, um það sem ég nefndi hér fyrst, breytingar er lúta að því að auka gagnsæi. Það var ekki mikill efnislegur ágreiningur um það, það voru kannski áhöld um hversu langt ætti að ganga. En til að gera langa sögu stutta held ég að þær breytingar sem hér eru lagðar til séu eðlilegar og til þess fallnar að bæta starfsumhverfi og má segja að þetta ákvæði hefði hugsanlega átt að vera fyrir hendi og hefði kannski getað komið í veg fyrir eitthvað af því sem við upplifðum í haust. Ég tel því að þetta sé til bóta.

Varðandi kynjahlutföllin vil ég segja að ég er sammála því meginmarkmiði að við eigum að hafa hlut karla og kvenna í stjórnum hlutafélaga sem jafnastan hvort sem það eru einkahlutafélög eða önnur félög. Ég tel og tek undir með hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur að það sé góður bragur á því og það hefur komið í ljós í rannsóknum að fyrirtæki sem stjórnað er af konum virðast standa sig betur en fyrirtæki þar sem kraftar kvenna fá ekki notið sín. Hins vegar er ég alltaf smeyk við það að beita þvingunaraðgerðum í þessar áttir með þessi markmið í huga og ég er algjörlega ósammála hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur sem lagði til að við skoðuðum í nefndinni að koma á einhvers konar kynjakvóta í þessum efnum. Ég tel að það sé ekki rétta leiðina að þessu vegna þess að það sem íslensk fyrirtæki þurfa ekki á að halda akkúrat um þessar mundir er aukin skriffinnska og aukið skrifræði. Þau þurfa að fá sveigjanleika og svigrúm til að geta starfað og ég tel nóg gert með jafnréttislögunum sem sett voru fyrir tæpum tveimur árum þar sem Jafnréttisstofa fékk auknar heimildir til að fara inn í fyrirtæki og gera athugasemdir og hvetja fyrirtæki til að sinna þessu. Ég tel ekki útséð með að sú lagasetning sé farin að skila árangri. Ég velti þess vegna fyrir mér hvort þessi lagaákvæði varðandi kynjahlutföllin séu í raun óþarfi þegar þau er skoðuð með hliðsjón af jafnréttislöggjöfinni sem hér var sett.

Ég sé að í greinargerð með frumvarpinu á bls. 3 er vísað til þeirrar lagasetningar og, með leyfi forseta, vil ég lesa hér aðeins upp úr því sem þar stendur undir fyrirsögninni Kynjahlutföll:

„Samkvæmt gildandi lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, skulu atvinnurekendur vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna í starfsemi sinni og á vinnumarkaði almennt. Fyrirtækjum og stofnunum, þar sem starfa fleiri en 25 starfsmenn að jafnaði á ársgrundvelli, er auk þess skylt að setja sér jafnréttisáætlun eða samþætta jafnréttissjónarmið í starfsmannastefnu sína, …“

Mér finnst þetta vera talsvert og mér finnst þetta alveg ágætt. Í framhaldinu segir að Jafnréttisstofa geti framfylgt þessari skyldu og hún hefur ýmsar heimildir og getur lagt á fyrirtæki og stofnanir dagsektir ef þau framfylgja ekki þessu ákvæði. Mér finnst ekki alveg fullreynt að þessi lagasetning sé farin að bera árangur þannig að ég vildi leyfa mér að draga úr slíku valdboði hér. Að minnsta kosti til að byrja með ætti þetta aðeins við um stærri fyrirtæki en ekki smærri fyrirtæki sem hafa kannski ekki aukastarfslið og starfslið í utanumhald til að þessar upplýsingar verði tiltækar nema pappírsvinna og skriffinnska verði aukin á litlu fyrirtækin sem mega kannski ekki við því og allra síst um þessar mundir. En þetta er eitthvað sem við skoðum í nefndinni.

Um þriðja þátt frumvarpsins, stöðu hinna svokölluðu starfandi stjórnarformanna og þá nálgun að láta þetta taka til starfandi stjórnarformanna í fyrirtækjum af öllum stærðum og gerðum, má segja að þar eigi við það sama og ég var að fara yfir varðandi kynjahlutföllin, að þetta eru kannski of strangar kröfur hvað varðar lítil fyrirtæki, t.d. fjölskyldufyrirtæki þar sem fólk skiptir með sér verkum. Ég tel að við ættum að skoða það í nefndinni hvort þetta ætti, a.m.k. í upphafi, einungis við um stærri fyrirtæki og að við setjum ekki á smærri fyrirtæki óþarfa kröfur sem þau eiga í erfiðleikum með að uppfylla einmitt um þessar mundir.

Þetta eru þær athugasemdir sem ég vildi nefna í fyrstu yfirferð. Við tökum svo málið til frekari vinnslu í hv. viðskiptanefnd þar sem ég treysti á að leitað verði umsagna og farið vel yfir málið eins og nefndarinnar er von og vísa.