137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[12:04]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta rifjaði upp blíðar endurminningar úr iðnaðarráðuneytinu en ég er hér sem utanríkisráðherra.

Ég kem fyrst og fremst til þess að þakka hv. þingmanni og formanni Framsóknarflokksins, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, fyrir þessa ræðu. Ég er honum þakklátur fyrir þær leiðbeiningar sem hann veitti mér um spuna, hann er vafalaust miklu færari í þeim efnum en aumur ég þrátt fyrir langa setu á þingi. Mér finnst hins vegar að ræða hans öll hafi verið ofin þeim þræði að hann vill ná breiðri samstöðu um þetta mál og mér finnst á honum að hann telji að það sé hugsanlega hægt. Ég er auðvitað sannfærður um það, án þess að vilja túlka of mikið stefnu Framsóknarflokksins þó að ég hafi grandlesið hana, að það séu miklir möguleikar á því.

Það var eitt sem hv. þingmaður nefndi sérstaklega, hann taldi að það væri ekki rétt að einn flokkur færi með þessa samninga. Það er ekki ætlunin. Ég er, eins og ég sagði hér fyrr í dag, reiðubúinn til þess að hlusta á allt það sem þingið hefur að segja í þessum efnum og ég mun fara eftir því sem þingið vill, það er ekkert (Forseti hringir.) flóknara en svo.