137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[12:54]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það kemur mér ekkert á óvart frekar en öðrum hér að áhugi hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra á inngöngu í Evrópusambandið er gríðarlega mikill. Það sem kemur hins vegar töluvert á óvart eru þær röksemdir sem hann færir fram í ræðu sinni, ekki hvað síst hvað varðar efnahagslegan stöðugleika á Íslandi, upptöku evru og slíka hluti, að ekkert af þessu kemur fram í þingsályktunartillögu ríkisstjórnarinnar. Í þingsályktunartillögunni kemur ekkert fram um af hverju við ættum að fara inn í Evrópusambandið. Fyrir þá sem munu lesa þessa tillögu þegar hún verður þýdd úti í Brussel munu þeir væntanlega spyrja sig að því hvaða ástæður það eru sem Íslendingar setja á oddinn fyrir því að vilja fara inn. Þarna eru eingöngu talin upp atriði sem mæla gegn því að menn ættu að ganga í Evrópusambandið og þau atriði sem þarf sérstaklega að vernda í samningaviðræðum við Evrópusambandið.

Mig langar því til að spyrja hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra að því (Forseti hringir.) hvort hann hefði ekki talið betra að sá rökstuðningur, frú forseti, væri í tillögunni.