137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[18:13]
Horfa

menntamálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Sú tillaga sem hér er til umræðu og hefur verið rædd í allan dag er um margt söguleg í ljósi þess að þessi mál, málefni Evrópusambandsins og hagsmunir Íslands af inngöngu í sambandið, hafa auðvitað verið til umræðu í hinu pólitíska lífi í mörg ár og í raun allt frá því að aðild Íslands að EES-samningnum var til umræðu hér í kringum 1990.

Sú sem hér stendur hefur þegar setið í nokkrum nefndum um tengsl Íslands og Evrópusambandsins, þeirri fyrstu sem Björn Bjarnason stýrði og tók til starfa árið 2004 og skilaði af sér ítarlegri skýrslu árið 2007, og einnig í þeirri nefnd sem stýrt var af hv. þingmönnum Illuga Gunnarssyni og Ágústi Ólafi Ágústssyni, fyrrverandi varaformanni Samfylkingarinnar, á síðasta kjörtímabili. Þessi málefni hafa því verið til umræðu í hinni pólitísku orðræðu árum saman og ljóst að sitt hefur sýnst hverjum og mjög margvíslegir hagsmunir tengjast þessari umræðu.

Það sem oftast er rætt þegar rætt er um Ísland og Evrópusambandið eru auðlindirnar, aðgangurinn að fiskveiðiauðlindinni, hugsanleg framtíð landbúnaðarins og yfirráð yfir auðlindum, hvort sem þær eru á sjó eða á landi, og hvernig Íslandi mundi farnast innan auðlindastjórnunar Evrópusambandsins. Þar hafa ýmis álit verið lögð fram og margir haft sína skoðun á því hvernig okkur mundi farnast en það er ljóst að menn eru ekki á eitt sáttir um það þó að sú sem hér stendur telji ljóst að hagsmunum okkar sé betur borgið utan sambandsins út frá þeirri auðlindastefnu sem þar hefur ríkt, bæði fiskveiðistjórnarstefnu og landbúnaðarstefnu.

Fleiri pólitískar spurningar tengjast Evrópusambandinu, það er Evrópusambandið sjálft, hvernig það hefur þróast á undanförnum árum og áratugum. Þróunin þar hefur verið mjög hröð og mikil allt frá því að það var stofnað á sínum tíma sem fyrst og fremst viðskiptabandalag í kringum kol og stál. Samskipti þeirra ríkja sem myndað hafa Evrópusambandið, sem áður hét Evrópubandalagið, hafa síðan orðið umfangsmeiri og hagsmunirnir hafa orðið æ margvíslegri. Þannig hefur sambandið stækkað, ríkjunum fjölgað, íbúum á svæði þess fjölgað og sambandið farið að ná til fleiri og fleiri þátta í daglegu lífi fólks. Það hefur ekki bara snúist um viðskipti heldur líka um löggjöf á margvíslegum sviðum hvort sem það er á sviði atvinnumála, félagsmála, umhverfismála eða annarra málaflokka.

Hvert sambandið stefnir nú er í raun og veru ekki alveg ljóst. Mótuð voru drög að ítarlegri stjórnarskrá fyrir Evrópusambandið sem voru felld á sínum tíma í þjóðaratkvæði í Frakklandi og Hollandi og var það ákveðið bakslag í þróun sem hafði verið í Evrópusambandinu sem snerist í raun og veru um að færa ríkin nær hvert öðru, að þróa þetta meir í átt að sameiginlegu ríki fremur en ríkjasambandi. Stjórnarskráin miðaði að meiri sameiningu í ýmsum málaflokkum, sameiginlegri rödd t.d. í utanríkismálum, og þetta varð því ákveðið bakslag fyrir þá sem hefðu viljað sjá Evrópusambandið þróast hraðar í átt að sameiginlegu evrópsku ríki. Stjórnarskráin var svo endurskoðuð og henni breytt í það sem kallað hefur verið Lissabon-sáttmálinn sem var svo felldur í þjóðaratkvæðagreiðslu á Írlandi, sem var enn eitt bakslagið fyrir Evrópusambandið eða þá aðila innan þess sem hafa viljað sjá sambandið þróast í átt að ríki. Í raun má segja að enn sé allt óljóst um þá framtíð því að Lissabon-sáttmálinn verður svo aftur til afgreiðslu á Írlandi núna í haust og auðvitað mun afgreiðsla Íra á sáttmálanum ráða miklu um það hver þróunin verður.

Þeir sem hafa fylgst með þróuninni átta sig líka á því að stækkun sambandsins hefur breytt áherslum innan þess og sumir helstu Evrópusinnar innan Evrópusambandsins — ég get nefnt sem dæmi hinn þekkta þýska græningja Joschka Fischer — hafa bent á að stækkunin leiði í raun og veru til þess að minni líkur séu á því að Evrópusambandið verði ríki, að það verði í raun og veru laustengdara samband. Evrópusambandið er ekki eitt óumbreytanlegt fyrirbæri, það er ljóst að þróunin innan þess hefur verið hröð og enn þá sér ekki fyrir endann á því hver hún mun verða. Það virðist vera erfitt fyrir marga að taka skýra afstöðu til Evrópusambandsins og hvert eigi að stefna í þeim málum, bæði út af því að fólk telur sig ekki vita hvernig hagsmunum Íslands verði best borgið, fólk telur sig ekki vita nákvæmlega hvernig samningurinn við Evrópusambandið muni koma út fyrir Ísland, út frá t.d. yfirráðum yfir fiskveiðiauðlindinni, út frá hvernig landbúnaður verði skilgreindur en líka spilar þar inn í að þróunin innan Evrópusambandsins er ekki skýr og ekki ljóst hvert stefnir.

Þeir sem hafa haft efasemdir um Evrópusambandið sem fyrirbæri á annað borð benda á það líka að þetta er yfirþjóðlegt batterí og sem slíkt er það auðvitað útilokandi fyrir aðrar þjóðir sem standa utan Evrópu. Það hefur verið eitt helsta gagnrýnisatriði, t.d. róttækra vinstri manna, á Evrópusambandið að það er í raun og veru kapítalísk eining sem byggist á ákveðnum markaðshvötum og útilokar um leið aðrar fátækari þjóðir frá þeim viðskiptahagsmunum sem þar stjórna, enda hafa yfirlýst markmið Evrópusambandsins verið að gera Evrópu að samkeppnishæfasta hagkerfi heims.

Enn ein gagnrýnin sem hefur verið nefnd í tengslum við Evrópusambandið eru auðvitað lýðræðismálin og sá lýðræðishalli sem hefur því miður tíðkast innan sambandsins og er í raun viðurkenndur innan þess og snýr að því að ákvarðanir eru ekki endilega teknar mjög lýðræðislega. Það sést á því að t.d. er ekki farið með Lissabon-sáttmálann í þjóðaratkvæði nema hjá einu aðildarríki. Enn fremur að mjög margar ákvarðanir eru teknar eingöngu í framkvæmdastjórninni og ráðherraráðinu en færri ákvarðanir hafa verið teknar á Evrópuþinginu. Þó að ætlunin með þessum sama Lissabon-sáttmála sé einmitt að reyna að styrkja Evrópuþingið hafa menn lýst áhyggjum af því að lýðræðishallinn sé of mikill, hinn almenni kjósandi hafi lítil áhrif á það hvert sambandið þróist og hver þróun mála verði af því að atkvæði greitt Evrópuþinginu skili í raun og veru ekki áhrifum. Þetta hefur því miður sést í bágri þátttöku í kosningum til Evrópuþingsins en sú þátttaka á það til að fara niður í 30–40% sem hlýtur auðvitað að vera sérstakt áhyggjuefni fyrir Evrópusambandið, þ.e. hversu bág þátttakan er.

Hafandi sagt þetta er auðvitað ljóst að álitamálin eru mörg. Eitt hef ég auðvitað ekki nefnt hér og það eru hin efnahagslegu rök sem hafa verið hvað mest áberandi á undanförnum mánuðum, eðlilega, í umræðunni um Evrópusambandið á Íslandi. Hin efnahagslegu rök tengjast að sjálfsögðu því að Evrópusambandið hefur þróast í þá átt á undanförnum árum að taka upp æ meiri sameinaða efnahagsstjórn og þegar evran var tekin upp á sínum tíma var það lokastig á ákveðnu peninga- og myntsamstarfi sem ætlað var að skapa meiri stöðugleika í efnahagsmálum innan Evrópusambandsins.

Þetta hafa auðvitað verið notuð sem rök hér á Íslandi nú þegar við eigum í okkar miklu efnahagserfiðleikum að þetta gæti verið leið út úr vandanum, þ.e. að ganga í Evrópusambandið og taka upp evru. Sá hængur er á þeirri hugmynd að til að taka upp evru þarf að uppfylla ýmis skilyrði, Maastricht-skilyrðin svokölluðu, og þau er að sjálfsögðu ekki auðvelt að uppfylla miðað við núverandi aðstæður í íslensku efnahagslífi en þau miðast við ákveðin verðbólgumörk, ákveðinn viðskiptahalla, ákveðna skuldastöðu sem við erum langt frá því að uppfylla og því má efast um að þessi efnahagslegu rök séu sérstaklega gild í því samhengi sem við ræðum þessi mál hér og nú. Enn fremur er auðvitað ljóst að staða mála á evrusvæðinu er ekki sérstaklega góð um þessar mundir frekar en nokkurs staðar annars staðar og sérstaklega vil ég nefna atvinnuástand en atvinnuleysi á því svæði hefur verið í kringum 8–9% að undanförnu sem er auðvitað áhyggjuefni að atvinnuleysið sé í raun nýtt sem hagstjórnartæki á þessu svæði en það má segja að í staðinn komi ákveðinn stöðugleiki í öðrum efnum þannig að lausnin sem þessu fylgir er kannski ekki einlit og einhlít.

Þetta eru aðeins nokkur af þeim álitamálum sem tengjast Evrópusambandinu og gera það að verkum að umræðan er oft og tíðum erfið því að þetta er ekki svart/hvít umræða, þetta er að mörgu leyti umræða sem er á gráu svæði, það eru kostir og það eru gallar. Þegar öllu er á botninn hvolft, man ég að einhver ágætur Evrópufræðimaður sagði einhvern tíma, snýst þetta um það hvernig okkur líður í hjarta okkar með það að afsala okkur fullveldi að hluta. Og um það snýst auðvitað málið, það er verið afsala ákveðinni stjórn til Brussel, stjórn á fiskveiðum, stjórn á landbúnaði, stjórn mála í auknum mæli. Aðrir koma á móti og segja að við höfum þegar afsalað okkur fullveldi með EES-samningnum og við eigum frekar að sitja við þetta borð og þótt við munum ekki eiga marga fulltrúa við það skipti það máli.

Sú tillaga sem hér liggur fyrir og ég hef í raun og veru ekki rætt — enda hef ég fyrst og fremst verið að ræða þau álitamál sem hafa verið uppi í umræðunni um Evrópusambandið og hafa sett svip sinn á þá umræðu — snýr fyrst og fremst að því að með því að sækja um aðild að Evrópusambandinu fari málið í þann farveg að út úr því komi samningur sem hægt verði að vísa til íslensku þjóðarinnar þannig að hún komi að þessu máli, þannig að hún fái það á hreint hvað felst í þessari aðild, þannig að umræðan verði upplýst, að komið verði á hreint ýmsum málum sem tengjast t.d. sjávarútvegsstefnunni og sem tengjast t.d. landbúnaðinum. Að því leytinu til held ég að það skipti máli að þessi tillaga sé komin fram því að hún snýr að því að þetta mál fái lýðræðislega niðurstöðu. Það er það sem skiptir máli í þessum efnum, að þjóðin komi að þessu máli og ákveði það lýðræðislega hvort hún vilji gerast aðili eða ekki.

Á öllum Norðurlöndum þar sem sótt hefur verið um aðild að Evrópusambandinu, í Finnlandi, Svíþjóð, Noregi, Danmörku, kannski sérstaklega þó í þremur fyrstnefndu löndunum, Finnlandi, Svíþjóð og Noregi, hafa skoðanir verið mjög skiptar um aðildarumsókn. Í Finnlandi var fjögurra flokka ríkisstjórn sem sótti um á sínum tíma, tveir voru mjög fylgjandi aðild, tveir flokkanna voru tvístígandi í málinu. Í Svíþjóð voru mjög skiptar skoðanir bæði meðal almennings og í pólitíkinni, og bæði fyrir og eftir kosninguna var sagt að þjóðaratkvæðagreiðslan um samninginn í Svíþjóð hefði verið eina skoðanakönnunin sem hefði skilað jái um langt skeið bæði fyrir og eftir, því að það var ávallt meiri hluti á móti aðild bæði fyrir og eftir í Svíþjóð um langt skeið. Í Noregi var það klofinn Verkamannaflokkur sem setti fram umsóknina á sínum tíma og stór hluti hans greiddi atkvæði á móti umsókninni þegar Gro Harlem Brundtland lagði þetta mál fram á sínum tíma í norska þinginu.

Þetta sýnir í raun og veru að málið er umdeilt og klýfur þjóðir og ég held að það sé líka mjög mikilvægt að sú umræða sem á eftir að fara fram í samfélaginu verði ekki til að kljúfa þjóðina heldur verði í þá átt að upplýsa málið, ræða það út frá því sem við þekkjum og vitum, að umræðan verði ekki í skotgröfum, því að þetta er auðvitað gríðarlega stórt mál fyrir íslenska þjóð að taka afstöðu til á einhverjum slíkum forsendum. Og það er auðvitað stóra málið, að íslenska þjóðin taki þessa ákvörðun á endanum með lýðræðislegum hætti.