137. löggjafarþing — 12. fundur,  29. maí 2009.

undirbúningur mögulegrar umsóknar um aðild að Evrópusambandinu.

54. mál
[14:17]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir ræðu hans þar sem hann tekur efnislega undir þau sjónarmið sem búa að baki þessu þingmáli og skilur sig þannig frá sumum hv. þingmönnum sem skipa sér í flokk með honum og hafa haldið uppi mjög harðri gagnrýni á málið.

Mig langar að spyrja hæstv. utanríkisráðherra, í tilefni af því að hann bendir á að völ sé á nokkrum leiðum þegar kemur að þeim vegvísi sem fjallað er um í þingmálinu, um sýn hans á það með hvaða hætti staðið verði að staðfestingu samnings við Evrópusambandið, ef slíkir samningar nást á endanum. Erum við sammála um það, ég og hæstv. utanríkisráðherra, að það geti aldrei komið til þess að slíkur samningur verði borinn undir þetta þing?