137. löggjafarþing — 12. fundur,  29. maí 2009.

undirbúningur mögulegrar umsóknar um aðild að Evrópusambandinu.

54. mál
[15:58]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Virðulegur forseti. Það er enginn vafi á því að mál sem varðar hugsanlega umsókn Íslands að Evrópusambandinu er án efa eitt stærsta mál sem Alþingi Íslendinga hefur tekist á herðar á liðnum árum. Hér er um að ræða mál af þeirri stærðargráðu að óhjákvæmilegt er að skoðanir á því séu skiptar og einnig að þær séu jafnvel afar tilfinningaþrungnar margar hverjar.

Þeir sem kallast geta aðildarsinnar hafa mjög ákveðna sýn á hvernig farið er með þetta mál og vilja auðvitað fá sem mestan hljómgrunn fyrir málflutningi sínum. Á hinum endanum hafa þeir sem eru eindregið andstæðingar þess að gengið sé til aðildar að Evrópusambandinu fyrir því veruleg rök og þarf líka að nálgast sjónarmið þeirra af mikilli virðingu. Þess vegna þarf að fara afar varlega þegar þetta mál er til umræðu og menn þurfa að vera sanngjarnir og rökfastir í skoðunum sínum.

Hér hafa verið til umræðu tvær þingsályktunartillögur. Önnur var lögð fram af hálfu ríkisstjórnarflokkanna um að við skulum nú þegar sækja um aðild að Evrópusambandinu. Sú þingsályktunartillaga hefur kallað fram tillögu af hálfu stjórnarandstöðunnar, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, sem er töluvert annars eðlis en þar er lagt til að þegar til ákvörðunar kemur skuli ákveðnir hlutir þegar liggja fyrir. Það skuli liggja fyrir hvernig málsmeðferðin í þessu máli verður, hvernig samskiptum við þingið verður háttað. Í þessu máli skiptir jafnvel enn meira máli en í mörgum öðrum að þingið hafi aðkomu að málinu á öllum stigum þess. Í síðari hluta þingsályktunartillögu Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks er talað um að mikilvægt sé að menn geri grein fyrir því í greinargerð hvað það er sem skiptir máli þegar og ef Alþingi tekur þá afstöðu að sækja beri um aðild að Evrópusambandinu og það er einmitt það sem mér finnst mjög mikilvægt, að Alþingi Íslendinga ræði málið.

Það er alveg rétt sem fram hefur komið ítrekað að afar margt hefur verið skrifað um Evrópusambandið. Það hafa margar skýrslur verið skrifaðar og hér hefur verið nefnd skýrslan frá því 2007 sem er ítarleg skýrsla um málefni Evrópusambandsins með aðkomu allra stjórnmálaflokka. Enn fremur hefur verið nefnd til sögunnar niðurstaða tvíhöfða nefndarinnar svokölluðu frá því í vor sem lauk raunar ekki störfum eins og til var ætlast vegna stjórnarskipta en engu að síður var þar verulega mikil vinna unnin í þessu efni. Í niðurstöðu þeirrar nefndar kom fram að skoða þyrfti málið betur áður en menn gætu tekið endanlega afstöðu til þess hvort aðildarumsókn að Evrópusambandinu væri æskileg fyrir þjóðina. Einnig kom fram, og það finnst mér skipta miklu máli, að þegar við förum í mál af þessum toga verði stjórnmálaflokkarnir og við sem berum ábyrgð á hag þjóðarinnar meðan við sitjum á þingi að athuga hvort við getum með einhverjum hætti náð samkomulagi um hvernig á málum skuli haldið. Þegar við vinnum svona mál og förum síðan með það til Brussel, ef af verður, endurspeglum við þjóðina sem býr í þessu landi. Við skulum vanda okkur þegar kemur að því og mér finnst skipta máli að um það sé sem víðtækust samstaða og samráð milli flokka.

Hvaða atriði eru það sem okkur finnst skipta máli þegar kemur að aðildarviðræðum að Evrópusambandinu, ef af þeim yrði? Það er mikið fjallað um það og meginþungi röksemdafærslunnar er af tvennum toga: Annars vegar eru það auðlindamál, þ.e. sjávarútvegurinn, sú mikilvæga auðlind, sem við Íslendingar höfum lifað af í gegnum aldirnar. Hins vegar er það staðan sem uppi er í efnahagsmálum þjóðarinnar, ekki bara undanfarin ár heldur hefur gjaldmiðillinn, íslenska krónan, verið mjög sveiflukenndur í nokkuð langan tíma. Spurningin er hvort ástæða sé til þess að skoða aðildarviðræður að Evrópusambandinu í efnahagslegu tilliti. Þá tiltaka menn gjarnan þau atriði sem nauðsynlegt er að gæta sérstaklega að ef farið yrði í slíkar samningaviðræður, þ.e. að við mundum ekki tapa yfirráðum yfir þessari auðlind okkar.

Það er eitt sem ég vil gjarnan nefna í þessu samhengi og mér hefur fundist skipta máli en hefur ekki verið nefnt sérstaklega við þessa umræðu. Umræðan hefur fyrst og fremst snúist um málsmeðferðina sem er það sem við ræðum hér. Þriðja atriðið sem mér finnst skipta máli er: Hvar viljum við Íslendingar skipa okkur meðal þjóða? Hver er staða Íslendinga meðal þjóða? Það getur vel verið að það ofsaveður og þau tíðindi sem urðu í haust og raunar í allan vetur hafi orðið til þess að við veltum fyrir okkur hvar við stöndum meðal þjóða. Það getur líka vel verið að vaknað hafi spurningar hjá mörgum okkar um brotthvarf bandaríska hersins af landinu, hvort það hafi haft víðtækari afleiðingar en við gerðum okkur grein fyrir, að við hefðum nú ekki sama samband við Bandaríkjamenn og við höfðum. Það er þriðja atriðið sem verður að ræða þegar kemur að því að skoða hvort æskilegt sé fyrir okkur að endurskoða utanríkismál okkar. Mér finnst að við eigum líka að ræða um það þegar við ræðum þetta mál á Alþingi. Mér finnst að við eigum að biðja utanríkismálanefnd að taka það mál til skoðunar og segja við utanríkismálanefnd: Skoðið þessa þætti líka, veltið fyrir ykkur í þeirri greinargerð sem gera skal hvort þetta sé ekki líka eitt af því sem þarf að skoða. Síðan getum við í kjölfarið tekið afstöðu til þess hvort eitthvað af þessu skiptir okkur svo miklu máli að aðild að Evrópusambandinu verði okkur ekki þóknanleg, eða þá á hinn veginn eftir því hvernig úr þessu spilast. Undirbúningurinn skiptir verulega miklu máli.

Mér fannst líka dálítið athyglisvert og ég furðaði mig mest á því þegar ég las tillögu ríkisstjórnarflokkanna um aðild að Evrópusambandinu — það er svo sem ekki í fyrsta skipti sem ég les eitthvað í þá veru — að það kom ekki nógu greinilega fram af hverju við Íslendingar ættum að skipa okkur á bekk Evrópuþjóða, hvaða kosti það hefði. Ég held nefnilega að grundvallarspurningin í allri umræðunni sé — og hún verður ekki umflúin þegar málið þroskast á vettvangi þingsins: Telur Ísland sig eiga heima meðal þjóða innan Evrópusambandsins? Teljum við að Ísland eigi að vera á bekk þeirra þjóða? Hvað er það sem við sækjumst eftir hjá Evrópusambandinu? Hvað er það í raun og veru í skipulagi Evrópusambandsins — ég held að við verðum að spyrja okkur að því — í þeirri pólitík sem þar er viðhöfð, líka hvað varðar sjálfsmynd okkar sem þjóðar? Allt eru það þættir sem þarf að skoða þegar við veltum fyrir okkur svo mikilvægu máli sem aðild okkar að Evrópusambandinu er. Í ræðum í gær kom m.a. fram hjá einum hv. þingmanni Samfylkingarinnar og raunar fleirum að sú staða sem við erum í núna í efnahagslegu tilliti sé svo alvarleg að það sé óumflýjanlegt annað en sækja um aðild að Evrópusambandinu. Þá spyr maður sig: Hvers vegna stendur það þá ekki í tillögunni? Hvers vegna stendur ekki í tillögunni að við séum í slíkum vanda að mati flutningsmanna í efnahagslegu tilliti, með gjaldmiðil okkar, að við þurfum að sækja styrk annars staðar frá? Hvers vegna kemur það ekki fram? Af þeim sex punktum sem tilgreindir eru fjalla a.m.k. fimm fyrst og fremst um varðstöðu um ákveðna hagsmuni sem við Íslendingar teljum skipta verulegu máli. Ég ætla ekki gera lítið úr þeim en það þarf líka að koma fram hvað það er í huga flutningsmanna sem skiptir svo miklu máli að ástæða sé fyrir okkur að sækja um aðild að Evrópusambandinu.

Ég dreg þessa þætti fram til að vekja þingheim til umhugsunar. Nú fara bæði málin í utanríkismálanefnd til umræðu, síðan koma þau væntanlega til seinni umræðu og það verður sú umræða sem verður grundvöllur niðurstöðu þingsins. En við þingmenn verðum að velta þessum hlutum fyrir okkur í aðdraganda þeirrar umræðu. Hvað er það sem skiptir okkur máli? Hvaða hugsanlegir kostir og gallar eru á ferðinni? Þess vegna segi ég að þó að málsmeðferðin skipti verulegu máli er þetta atriði sem ekki verður horft fram hjá.