137. löggjafarþing — 14. fundur,  4. júní 2009.

skýrslur nefnda um háskólamál.

[11:09]
Horfa

menntamálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrir að efna til þessarar utandagskrárumræðu um mál sem er mjög mikilvægt, staða og þróun háskólamenntunar á Íslandi og hvaða hlutverki háskólarnir munu gegna við endurreisn íslensks samfélags. Að minnsta kosti er það mín trú og ég efa ekki að það er trú okkar margra sem hér sitjum að þar muni háskólarnir, vísindastofnanirnar og rannsóknastofnanirnar gegna lykilhlutverki í því að endurreisa samfélagið. Þar liggja okkar sóknarfæri, þar höfum við séð gríðarlega þróun á undanförnum árum og það er rétt sem hv. þingmaður nefndi að fjölgun háskólanema hefur auðvitað verið mjög jákvæð.

Fyrst vil ég nefna eitt sem hv. þingmaður kom inn á og það er staða grunnskólans og hversu mikilvæg grunnmenntunin er fyrir samfélag okkar. Ég held að eitt af lykilatriðunum sem við þurfum að hafa í huga þegar við stöndum í því að endurskipuleggja ríkisfjármálin og horfa á stöðu skólakerfisins, sé að hlúa að grunnskólanum, grunnmenntuninni. Þar eru auðvitað ýmis atriði sem hafa vakið áhyggjur á undanförnum árum svo dæmi sé tekið t.d. niðurstöður PISA-kannana hvað varðar læsi og stærðfræðikunnáttu. Þar held ég að við þurfum að skoða sérstaklega hvernig við getum staðið vörð um grunnmenntunina því að hún er grunnurinn sem við byggjum áfram á hvert sem við höldum. Ég held að það sé líka mikilvægt að við skoðum sérstaklega stöðuna í þeim greinum sem hafa verið mældar og hvernig við getum eflt stöðu okkar í þeim efnum. Ég nefni t.d. læsi sem að mínu viti er undirstaðan fyrir allt sem á eftir kemur og hvað það er gríðarlega mikilvægt að lesskilningur barna sé góður þannig að þau hafi jöfn tækifæri til að halda áfram sinni menntun hvaða leið sem þau fara.

Hvað varðar endurskipulagningu háskólakerfisins þá tel ég að ýmsar mjög góðar hugmyndir séu settar fram í báðum þessum skýrslum, þeirri íslensku og líka erlendu sérfræðingaskýrslunni. Hvað varðar stöðu t.d. vísindastarfs og stöðu Vísinda- og tækniráðs þá held ég að það sé lykilatriði að það verði áfram miðlæg stofnun í okkar samfélagi og vinni út í allar stofnanir samfélagsins, tryggi brýr á milli atvinnulífs og vísinda þannig að við sjáum fram á nýsköpunarstarfsemi í atvinnulífi, sjáum fram á áframhaldandi þróun í þeim efnum.

Ég vil líka nefna að eitt af því sem erlendu sérfræðingarnir nefndu sérstaklega eru hinar skapandi greinar og þar tel ég að séu mikil sóknarfæri, t.d. í menningargeiranum sem hefur farið mjög vaxandi á undanförnum árum og skilað auknum fjármunum til baka inn í samfélagið. Ég nefni sem dæmi tónlistina. Af handahófi nefni ég það dæmi því að þar hafa íslenskir tónlistarmenn getið sér gott orð á erlendri grundu, skapað störf, skilað peningum til samfélagsins þannig að hagræn áhrif af skapandi greinum verðum við að skoða sérstaklega. Þau hafa verið rannsökuð og það kemur í ljós að þær greinar skila miklu til samfélagsins en þessi skýrsla rennir raunar stoðum undir það, en þar er líka raunar kveðið á um önnur svið sem ég held að við eigum að skoða í atvinnulífinu.

Hvað varðar síðan háskólaskipulagninguna sjálfa er ljóst að hún er mjög mikilvæg. Reyndar er þetta sá geiri sem byggist auðvitað að stóru leyti á samkeppni og þegar ég tala um samkeppni á ég ekki bara við samkeppni um nemendur, ég á við samkeppni milli vísinda- og fræðimanna um árangur í rannsóknum, samkeppni milli þeirra sem stunda nám um að standa sig vel. Ég held reyndar að samkeppni innan þessa geira sé mjög mikilvæg.

Hvernig sjáum við háskólakerfið þróast? Ég vil skoða sameiningar. Þarna eru t.d. lagðar til ákveðnar leiðir, sérstaklega af erlendu sérfræðingunum sem leggja til ákveðna leið í þessu ferli, að ákveðnir skólar sameinist. Hins vegar hef ég farið þá leið þar sem ég tel mjög mikilvægt að háskólasamfélagið allt komi að þessu máli og taki þátt í þessari stefnumótun því að þar liggur auðvitað þekkingin og kunnáttan á samfélaginu, að þau rýni þessar hugmyndir og ég gef júnímánuð í að skoða þær. En ég tel alveg koma til greina einhverjar frekari sameiningar eða aukið samstarf í formi samstarfssamninga milli stofnana þannig að nemendum sé gert kleift að sækja námskeið milli skóla og annað slíkt. Við vitum að það er talsvert samstarf á vísindasviðinu, þar eru fræðimenn milli einstakra skóla og stofnana að vinna saman að verkefnum á ákveðnum fagsviðum. Ég held að það sé líka mikilvægt að við eflum þetta samstarf án þess þó að við glutrum því niður að skólarnir viðhaldi sérstöðu sinni og geti byggt upp sín fög, sínar ólíku áherslur og fræðasvið.

Það felst margt í þessu samkeppnishugtaki og ég held að það sé mikilvægt. Ég hef t.d. ávallt talað fyrir samkeppnissjóðunum í vísindum en ég held líka að við þurfum á svona tímum að horfa á samstarf upp á heildina.

Hvað varðar hugmyndir um að breyta skólum í sjálfseignarstofnanir ætla ég kannski að ræða ítarlegar í seinna innleggi mínu hér, en það er eitt af því sem þarf að sjálfsögðu að skoða. Það er hluti af störfum þessa rýnihóps að skoða hvert við ætlum að stefna með skólana, en þar er auðvitað líka rætt um kosti þess að hafa ólík rekstrarform á þeim skólum sem eru starfandi. Ég held að við þurfum að vega það og meta í þessu samhengi.