137. löggjafarþing — 14. fundur,  4. júní 2009.

náttúruverndaráætlun 2009--2013.

52. mál
[12:57]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil ekki fórna hlýjunni á milli okkar umhverfisnefndarmanna en þetta verð ég að segja að var ómaklegt vegna þess að hér er verið að ræða náttúruverndaráætlun. Sagt var að hér vantaði framsæknar tillögur Vinstri grænna. Ég skora á hv. þm. Eygló Harðardóttur að lesa þann fjölda gagna og framsækinna hugmynda og stefnu sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur lagt til einmitt í öllum þessum ólíku málum sem snerta umhverfisvernd og umhverfismál. Hv. þm. Eygló Harðardóttir gæti byrjað að lesa Grænu framtíðina okkar þar sem einmitt er tekið á þessum ólíku þáttum. Það er því ómaklegt að segja að við teflum ekki fram þessum tillögum og hugmyndum einmitt í þessu samhengi þegar verið er að ræða náttúruverndaráætlun og mikilvægi þess að henni sé framfylgt af metnaði og framsækni.